137. löggjafarþing — 49. fundur,  11. ág. 2009.

Bankasýsla ríkisins.

124. mál
[15:42]
Horfa

Frsm. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var athyglisvert að hlusta á málflutning hv. þingmanns sem var einlægur í því þegar hann sagði að það væri erfitt að vera stjórnarþingmaður og ég held að það sé alveg hárrétt. Ég held að það sé sérstaklega erfitt fyrir hv. þingmann vegna þess að ég tel að hann sé að breyta gegn betri vitund, (Gripið fram í.) ég hef trú á hv. þingmanni.

Hann nefndi hér, að vísu ekki réttilega, að þetta snerist um að færa verkefni frá fjármálaráðherra, að stjórnarandstaðan haldi því fram að hæstv. fjármálaráðherra sé inni í öllum málum og reki þennan banka og það sé niðurstaðan ef menn búi ekki til 100 millj. kr. bankaumsýslu. Það er að vísu ekki rétt. Ég fer yfir það seinna í ræðu minni.

Hann nefndi hins vegar, ef ég skildi hv. þingmann rétt, að hér væri um afskaplega mikla — ég veit ekki hvað skal segja, ætli það sé ekki þá samvinna og einhvers konar valddreifing eða eitthvað slíkt á ferðinni því að ráðherra mun kynna fyrir viðskiptanefnd hverjir verða í stjórn bankasýslunnar af miklu umburðarlyndi og góðmennsku. Viðskiptanefnd segir hvorki meira né minna en álit sitt á þessu. Er það svo, virðulegur forseti, að hv. þingmaður (Forseti hringir.) telji í fullri alvöru (Forseti hringir.) að þetta skipti einhverju máli?