137. löggjafarþing — 49. fundur,  11. ág. 2009.

kjararáð o.fl.

114. mál
[17:25]
Horfa

Frsm. efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þessa ágætu umræðu sem í sjálfu sér er endurómur af þeirri umræðu sem var við 2. umr. Ég vil alls ekki gera lítið úr áhyggjum manna og tek undir með hv. þm. Birki Jóni Jónssyni að auðvitað er í þessu efni vandrataður meðalvegurinn. Sannarlega er það áhyggjuefni fyrir Ísland í alþjóðlegri samkeppni þegar verðmæti gjaldmiðilsins hefur hrunið um helming. Og auðvitað mun það hafa áhrif á samkeppnishæfni okkar um ýmsa sérfræðinga næstu missiri og ár að öllum líkindum, sú mikla breyting, en hún er auðvitað ekki fólgin í því litla máli sem er hér til afgreiðslu heldur í því efnahagshruni sem orðið hefur.

Auðvitað skiptir það gríðarlega miklu máli, og kannski ekki síst í heilbrigðiskerfinu sem hæstv. fyrrverandi heilbrigðisráðherra nefndi og ber fyrir brjósti ekki síður en hv. þm. Birkir Jón Jónsson, að við getum haldið mikilvægum sérfræðingum og boðið laun þannig að við getum haldið áfram traustum stoðum í því öfluga heilbrigðiskerfi sem okkur hefur tekist að reka. Það er alveg rétt hjá hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni að þetta mál snertir í raun og veru aðeins einn starfsmann í heilbrigðiskerfinu þannig að menn þurfa ekki að hafa áhyggjur af því í tengslum við þetta tiltekna mál að fara í launalækkanir. Það lýtur að tiltölulega litlum hópi stjórnenda en er engu að síður mikilvægt.

Það er skemmst frá því að segja, vegna spurningar frá hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni, að við tókum málið upp milli umræðna í efnahags- og skattanefnd og ég held að það hafi einfaldlega ekki verið gerðar neinar breytingar eða hugmyndir og tillögur að breytingum sem áttu nýju fylgi að fagna í nefndinni. Það eru engar augljósar og betri leiðir við að reyna að sigla þann meðalveg sem hér er verið að feta. Ég held að við verðum að hafa á því nokkurt traust að fyrir 935 þús. kr. á mánuði má finna býsna mikið af býsna góðum stjórnendum í öllum geirum og þó að það sé virðingarvert af fyrrverandi hæstv. heilbrigðisráðherra að bera þann geira fyrir brjósti sem hann hefur haft forustuhlutverk í og taka hann hér til umræðu eru það sjónarmið sem má færa fram í ýmsum öðrum geirum líka. Við hv. þingmaður þekkjum til að mynda ágætlega til í orkugeiranum, að hið sama hefur gerst í opinberum fyrirtækjum og hálfopinberum fyrirtækjum varðandi launakjör stjórnenda á síðustu árum, að þau hafa farið umtalsvert upp fyrir það sem áður þekktist í hinum opinbera geira, þau hafa farið upp fyrir laun ráðherra og eins og hinna æðstu embættismanna í stjórnkerfinu. Ég held, með djúpri virðingu fyrir þeim stjórnendum sem við höfum átt í orkugeiranum, að það hafi ekki þýtt að við séum með svo miklu betri stjórnendur nú en fyrir nokkrum árum. Ég held að við eigum sannarlega góða von til að halda hæfum stjórnendum með þeim launum sem verið er að marka í þessum stofnunum og fyrirtækjum og fá góða og öfluga stjórnendur. Ég hlýt auðvitað að vekja athygli á því sem formaður nefndarinnar að hér er um að ræða stjórnarfrumvarp. Það inniber að ráðherrar ríkisstjórnarinnar sem þurfa að annast framkvæmdir þeirra laga sem eru samþykkt í þinginu treysta sér til þess að ráða stjórnendur til að framfylgja samþykktum þingsins og þeim lögum sem sett eru innan þess ramma sem hér er lagður til. Það getur auðvitað verið að í einstaka málum muni þar reyna á og það leiðir tíminn einn í ljós.

Ég undirstrika að ég vil alls ekki gera lítið úr þeim áhyggjum sem menn hafa lýst vegna þess að auðvitað verður það hið stóra verkefni sem hv. þm. Birkir Jón Jónsson nefndi, nú þegar þetta Icesave-mál verður að baki — vonandi fljótlega — að koma krafti í atvinnulíf og verðmætasköpun á ný til að hér geti skapast forsendur fyrir því að við getum boðið kjör sem eru samkeppnishæf á alþjóðlegan mælikvarða. Eins og kom fram hjá hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni hafa einstaka sérfræðingar og stjórnendur, ekki bara hjá hinu opinbera heldur ekkert síður á einkamarkaðnum, auðvitað fallið gríðarlega í launum í hinum alþjóðlega samanburði við gengisfall krónunnar. Það mun gera okkur erfitt fyrir í samkeppni um vinnuafl á næstu árum en lykillinn að því að breyta því er sá að við einhendum okkur í að koma Íslandi aftur í alþjóðlegt viðskiptaumhverfi og koma hjólum atvinnulífsins og verðmætasköpunarinnar í gang. Ég treysti því að á meðan við erum að vinna að þeim verkefnum munum við finna stjórnendur í þessi mikilvægu störf sem þetta litla mál snertir sem séu góðir og hæfir stjórnendur og fáist til að ráða sig á þeim launakjörum sem forsætisráðherra Íslands eru búin. Ef svo er ekki held ég að við þurfum að hafa miklar áhyggjur af þeim launakjörum sem forsætisráðherra eru búin.