137. löggjafarþing — 49. fundur,  11. ág. 2009.

kjararáð o.fl.

114. mál
[17:32]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get ekki heyrt annað en að menn ætli bara að fara fram með opin augun með þetta mál þrátt fyrir augljósa ágalla. Ég get ekki skilið það öðruvísi en að hv. þingmaður og stjórnarþingmenn allir skilji augljósu vankantana á þessu máli. Við vitum öll að þetta mun hafa mikil áhrif — almenn staða efnahagsmála, við urðum verr fyrir fjármálakreppunni en flestar aðrar þjóðir, það hefur áhrif. Við erum að gera okkur enn erfiðara fyrir með þessu máli og menn eru með opin augun varðandi það.

Ég vildi þá spyrja, af því að hér tala menn alltaf um 935 þúsundin: Er það þannig þegar við tölum um kjör forsætisráðherra, eru þá fríðindi inni í því? Mun þá forstjóri Landspítalans fá bílstjóra og bíl, (Gripið fram í.) pólitískan aðstoðarmann? Mun forstjóri Landspítalans, svo ég taki bara dæmi, þá fá aðgang að sumarbústað á Þingvöllum eða önnur þau fríðindi sem fylgja því að vera forsætisráðherra, lífeyrisréttindi og annað slíkt? Munu menn þá fara að samræma þetta og aðrir þeir forstöðumenn sem undir kjararáð heyra? Mun þetta ganga þá leiðina að menn reikni þessa hluti til launa eða verður það orðin regla að forstöðumenn ríkisstofnana verði með bílstjóra? Verður það línan? Mér þætti forvitnilegt að heyra um það.