137. löggjafarþing — 49. fundur,  11. ág. 2009.

kjararáð o.fl.

114. mál
[17:34]
Horfa

Frsm. efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Hann hefur hér með málefnalegum hætti vakið athygli á ákveðnum annmörkum sem hann telur vera á málinu sem geti haft alvarlegar afleiðingar. Hann hefur lýst þeim býsna vel og glögglega og málið hefur verið tekið til nefndar milli umræðna. Það eru engar breytingar gerðar á því þannig að það er augljóslega mat meiri hlutans hér og mín sem formanns nefndarinnar að þeir hagsmunir sem í því felast að samþykkja málið séu umtalsvert meiri en þeir annmarkar sem hann hefur bent hér á.

Hv. þingmaður spyr svo hinna ágætustu spurninga, sem hefðu í raun og veru átt að koma fram miklu fyrr við umfjöllun málsins, þ.e. hvað þetta þýðir nákvæmlega, hvað dagvinnulaun þýða o.s.frv. Hér hefur margoft verið undirstrikað við umræðuna að 935 þúsund séu meginviðmiðið og það væri í algjörum undantekningartilfellum ef það væri eitthvert álag eða einhverjir slíkir hlutir sem úrskurðaðir væru á það þó að meiri hluti nefndarinnar hafi ekki viljað útiloka það.

Hvað fríðindin varðar held ég að þróunin í þeim efnum sé einmitt í þá átt að afnema þau fríðindi sem eru í þessu efsta lagi. Þannig hefur forsætisráðherra fallið frá handhafalaunum sem hann naut áður. Þannig hafa lífeyrisréttindi bæði alþingismanna og ráðherra verið tekin til endurskoðunar, þannig verða dagpeningakerfi og hvers kyns sporslukerfi sem notuð hafa verið til þess að smyrja ofan á laun, endurskoðuð til lækkunar almennt í kerfinu en ekki til hækkunar. Ég held að það sé ágætt að undirstrika það hér við þessa umræðu. Ég treysti mér ekki til að fullyrða neitt varðandi aðgang að sumarbústað enda tel ég að það sé kannski fulllítill (Forseti hringir.) þáttur í kjörum stjórnenda ríkisstofnana til þess að við séum að úrskurða (Forseti hringir.) um það hér á Alþingi.