137. löggjafarþing — 49. fundur,  11. ág. 2009.

kjararáð o.fl.

114. mál
[17:36]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það gat nú verið að þetta væri mér að kenna að koma ekki með þessa athugasemd fyrr. En ég verð að segja að ég hélt í fullri alvöru að menn mundu skoða þetta mál, sem augljóslega er mjög gallað, af alvöru milli umræðna. Og ég vona að þetta sé ekki einhver lenska að menn segi bara að verið sé að taka hluti á milli umræðna bara til þess að róa þá umræðu sem er í gangi hverju sinni, heldur að það sé tekið alvarlega. Þetta er auðvitað stórmál. Það er alveg ljóst og hefur komið fram að við munum sjá hér kjaraskerðingu hjá öllum, vonandi allra minnst hjá þeim sem minnst hafa en óhjákvæmilega mest hjá þeim sem mesta hafa, það er bara þannig.

Hins vegar ef við búum þannig um hnútana og gerum það alveg sjálf getum við ekki keppt um bestu stjórnendurna í erfiðustu stöðurnar nema með því að fara í einhverjar æfingar, einhverjar fríðindaæfingar og slíkt sem t.d. hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir spáði að hér yrði og hefur m.a. verið viðloðandi í opinbera kerfinu til mikillar óþurftar. Það væru nú gustuk að hreinsa til hvað það varðar. Við erum augljóslega að gera erfiða stöðu enn erfiðari. Auðvitað munu menn líka, af því að ég er að tala um heilbrigðisgeirann, væntanlega taka mið af launum forstjóra spítalans hvað annað varðar þegar fram líða stundir.

Ég er afskaplega ósáttur við að menn skyldu ekki gera það sem lagt var upp með og við sitjum uppi með þetta mál, (Forseti hringir.) og það er svo sem ekkert meira um það að segja.