137. löggjafarþing — 49. fundur,  11. ág. 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

165. mál
[17:46]
Horfa

Frsm. efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Þetta er lítið mál sem hv. efnahags- og skattanefnd flytur og er í rauninni leiðrétting á bandorminum svokallaða sem var afgreiddur hér fyrir síðustu mánaðamót og þarf að flytja vegna þess að í þeim bandormi var dagsetning röng, ártalið var þar 2010 en ekki 2009, sem hefði seinkað viðkomandi skattlagningu um heilt ár. Það er ekki komið að henni þannig að það tekst þó að leiðrétta það í tíma. Þar sem gera þurfti þessa leiðréttingu og nefndin ákvað að flytja málið — og þakka ég hv. nefndarmönnum fyrir það og góða samvinnu við málið — eru jafnframt leiðrétt nokkur vörunúmer sem ýmist eru ekki í notkun og hins vegar sem sneru að te og kaffi og voru inni í vörugjöldunum frá gamalli tíð. Þau hafa náttúrlega ekkert sykurinnihald og tengjast því að engu leyti innleiðingu á sykurskattinum sem var í bandorminum og eru þar með felld niður svo að segja í leiðinni. Ég þakka hv. nefnd fyrir góða samvinnu um málið.