137. löggjafarþing — 49. fundur,  11. ág. 2009.

kjararáð o.fl.

114. mál
[18:19]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Hér er verið að lögfesta stjórnarfrumvarp um kjararáð sem felur það í sér að færa forstöðumenn ríkisstofnana og hlutafélaga í eigu hins opinbera undir kjararáð og miða laun þeirra við laun hæstv. forsætisráðherra, 935 þús. kr. á mánuði. Það blandast engum hugur um að í hinni óhóflegu þenslu á síðustu árum hljóp nokkur ofvöxtur í laun stjórnenda bæði á einkamarkaði og eins hjá hinu opinbera og er nauðsynlegt í tiltektinni eftir hrunið að taka þar á og setja því skýr mörk. Það er hér gert og ég fagna því.