137. löggjafarþing — 50. fundur,  12. ág. 2009.

störf þingsins.

[13:32]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við alþingismenn sitjum á löngu sumarþingi og fjöllum um ýmis merkileg mál. Í morgun var ég stödd sem varamaður á fundi umhverfisnefndar þar sem skyndilega var boðað til fundar til að tala um náttúruverndaráætlun. Meiri hlutinn afgreiddi áætlunina úr þeirri nefnd í mikilli og harðri andstöðu stjórnarandstöðunnar þar sem málið hefur ekki fengið umfjöllun í nefndinni. Það hefur einu sinni verið fjallað um það í þessari nefnd þar sem þeir sem smíðuðu álitið komu til að gera grein fyrir máli sínu. Það komu umsagnir frá ansi mörgum aðilum. Enginn þeirra var boðaður á fund nefndarinnar til að fjalla um málið og svo var það afgreitt út úr nefnd í morgun án þess að nefndin hafi nokkurn tíma fjallað sjálfstætt um málið. Þessi vinnubrögð koma mér sem er nýr þingmaður gríðarlega mikið á óvart og ég skil ekki hvers vegna stjórnarliðar ákveða að gera ágreining um hvernig málið er afgreitt úr nefnd. Er ekki nóg að ágreiningur sé um málin? Hvers vegna eru þessi vinnubrögð viðhöfð?

Ég spyr hv. varaformann nefndarinnar, Atla Gíslason, hvort honum þyki þetta virkilega vera fagleg vinnubrögð. Hvort hann telji að nefndarmenn séu vel upplýstir um hvaða ákvörðun þeir tóku í morgun, hvort ekki sé ástæða til þess og hafi ekki verið ástæða til að ræða við þá aðila sem veittu umsögn og hvort hafi ekki verið ástæða til að fara betur yfir málið, þar á meðal þær breytingartillögur sem fyrri umhverfisnefnd á fyrra þingi gerði við málið. Hvers vegna eru þessi vinnubrögð viðhöfð á Alþingi? Hvers vegna eru ekki viðhöfð fagleg vinnubrögð og hvers vegna megum við sem erum nýir þingmenn á Alþingi þurfa að þola þessi vinnubrögð af hálfu stjórnarmeirihlutans?