137. löggjafarþing — 50. fundur,  12. ág. 2009.

störf þingsins.

[13:39]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Við búum við vaxandi erfiðleika í atvinnuástandi landsins og aukna vantrú þjóðarinnar og landsmanna á eflingu atvinnulífsins. Þetta á ekki síst við í stéttum iðnaðar, tækni og verkfræði þar sem er að verða landflótti, okkar besta fólk flyst unnvörpum úr landi og óvíst er hvenær það skilar sér heim. Á sama tíma slær sú hæstv. ríkisstjórn sem nú er við völd á frest þeim framkvæmdum sem hefðu getað eflt atvinnulíf eins og eflingu samgönguframkvæmda og virkjanaframkvæmda. Svo liggur fyrir að það á að fara að gefa eftir þann árangur sem þjóðin náði í Kyoto-viðræðunum í fyrirhuguðum loftslagsviðræðum í Kaupmannahöfn. Frekari áform um stóriðju eru þess vegna í uppnámi í þessu landi ef til framtíðar er litið.

Allir sérfræðingar sem fjalla um málefni Íslands og horfur til framtíðar eru sammála um að það er nýting náttúruauðlinda landsins sem fyrst og fremst mun gefa viðspyrnu til að við náum að byggja upp mannvænlegt samfélag að nýju. Það er ekki einungis hér innan lands sem það hefur komið fram, það hefur líka komið fram hjá sérfræðingum OECD og víðar. Þess vegna spyr ég hv. varaformann iðnaðarnefndar, Lilju Rafneyju Magnúsdóttur, um markmið stjórnarflokkanna í atvinnumálum. Hvert er það og hvað ætla þessir stjórnarflokkar að gera í atvinnumálum? Ég spyr að því hvort menn sjái virkilega ekki skóginn fyrir trjánum. Hvar sjá menn í þessum flokkum tækifæri til atvinnusköpunar ef það verður ekki með aukinni nýtingu náttúruauðlinda og á þeim vettvangi stóriðju sem allir sérfræðingar sem um málið fjalla eru sammála um að verði sú viðspyrna sem við þurfum?