137. löggjafarþing — 50. fundur,  12. ág. 2009.

störf þingsins.

[13:48]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Þrátt fyrir að við séum alla daga að ræða hér afar erfið mál eins og Icesave og mál sem kljúfa þjóðina í tvennt eins og umsókn um Evrópusambandið og önnur íþyngjandi mál, þrátt fyrir það þurfum við engu að síður að horfa fram á við. Við þurfum að hafa framsýni og bjartsýni að leiðarljósi og huga að uppbyggingu. Í því ljósi er mikilvægi alþjóðasamvinnu ekki það minnsta. Við þurfum að læra af öðrum.

Mig langar að nefna að í síðustu viku átti ég þess kost á vegum Alþingis að heimsækja Grænland vegna ráðstefnu Vestnorræna ráðsins og langar því að ræða hérna aðeins við formann ráðsins, hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur, um mikilvægi þessarar samvinnu við Grænlendinga og Færeyinga og þá staðreynd að við sem búum á norðurslóðum eigum gríðarlega sameiginlega hagsmuni. Þessi ráðstefna snerist um ófaglært starfsfólk og þó svo að við séum kannski stóri bróðirinn að einhverju leyti í þessu samstarfi og séum að einhverju leyti að miðla af þekkingu okkar og þeirri uppbyggingu sem við höfum sinnt þá getum við engu að síður lært margt af nágrönnum okkar.

Í þessari heimsókn áttum við þess líka kost að kynnast þeirri staðreynd hvað Grænland er gríðarlega víðáttumikið og hafið hér í kring er uppfullt af hagsmunum. Hér eru að opnast norður/austur leiðin og norður/vestur leiðin. Nú verður kannski í fyrsta sinn í sögu mannkyns hægt að sigla sitt hvorum megin hingað frá Asíu, þ.e. milli stóru úthafanna og það í gegnum okkar hafsvæði. Grænlendingar eða danski herinn ítrekaði mikilvægi þess við okkur á þessum fundi að hafa samvinnu við okkur Íslendinga og Grænlendinga á þessu svæði. Mig langar að heyra þess vegna í formanninum hvort hún sé ekki sammála mér um mikilvægi þess að við tökum virkilega á þessu máli og tökum þetta svæði til okkar og gerum það (Forseti hringir.) að okkar svæði sameiginlega með nágrönnum okkar, Grænlendingum og Færeyingum.