137. löggjafarþing — 50. fundur,  12. ág. 2009.

störf þingsins.

[13:51]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég verð að byrja á því að leiðrétta það að ég er ekki formaður Vestnorræna ráðsins. Ég er formaður Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins og gegni því starfi með mikilli gleði og stolti.

Ég þakka hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni fyrir að vekja máls á vestnorrænu samstarfi í framhaldi af þessari ágætu þemaráðstefnu sem við sóttum til Grænlands núna í síðustu viku, þ.e. helmingur Íslandsdeildarinnar. Af sparnaðarástæðum gátum við því miður ekki farið öll. Það hefði vissulega verið æskilegt en við verðum að virða samdráttar- og sparnaðarástæður.

Ég tek undir með þingmanninum að þetta samstarf er mjög mikilvægt, ekki síst vegna þess hvernig aðstæður eru að breytast í Norðurhöfum vegna þiðnunar og opnunar nýrra skipaleiða. Ég tek undir allt sem þingmaðurinn sagði í því samhengi. Við eigum margt sameiginlegt með Færeyingum og Grænlendingum og það var sérstæð og djúp reynsla eiginlega að koma þarna til Grænlands og skynja að þetta stóra og víðáttumikla land sem er svo fullt af auðlindum og á við svo erfiðar aðstæður að stríða varðandi samgöngur og vegalengdir og annað, þ.e. hvað þessi þjóð er í raun og veru um margt lík okkur Íslendingum og hvað Grænland er að mörgu leyti bara ýkt — vandamálin þar eru í raun og veru bara ýkt útgáfa af ýmsu því sem íslensk landsbyggð stendur frammi fyrir.

Við, eins og Grænlendingar og Færeyingar, lifum af því sem hafið gefur. Við eigum marga sameiginlega hagsmuni og það er mjög mikilvægt að halda uppi góðu samstarfi milli þessara þjóða, ekki síst í menntamálum og í sambandi við öryggis- og björgunarmál eins og hefur verið á dagskrá ráðsins vegna hættu í Norðurhöfum, þ.e. að samhæfa betur starfsemi björgunarsveita og öryggismála á þeim slóðum. Ég sé marga möguleika í þessu og ég tek undir það að (Forseti hringir.) við eigum hér eftir sem hingað til að reyna að vera sem best leiðandi í þessu samstarfi og (Forseti hringir.) einsetjum okkur að vera það áfram.