137. löggjafarþing — 50. fundur,  12. ág. 2009.

störf þingsins.

[13:53]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Frú forseti. Ég sit í umhverfisnefnd og hér fyrr í dag vorum við í meiri hlutanum vænd um ófagleg vinnubrögð þegar við afgreiddum út úr nefndinni tillögu að náttúruverndaráætlun. Ég vil í þessu sambandi benda á að tillagan var flutt óbreytt frá síðasta þingi en þá hafði umhverfisnefnd lokið umfjöllun sinni um málið og nefndarálit hafði verið frágengið.

Ég tel að nefndin hafi sýnt mjög fagleg vinnubrögð. Sex gestir komu á fund nefndarinnar. Það voru 40 umsagnir sem við sóttum á þessu þingi og það voru 20 umsagnir sem nefndin tók til hliðsjónar frá síðasta þingi, þ.e. það voru á milli 60–70 sjónarmið reifuð fyrir nefndinni. Ef það eru ófagleg vinnubrögð skal ég hundur heita. (Gripið fram í.)

Umsagnir voru (Gripið fram í.) almennt jákvæðar. Flestar þeirra byggðust á þeim misskilningi að hér væri um lög að ræða en ekki tillögu um náttúruverndaráætlun.

Í nefndaráliti okkar segir:

„Meiri hlutinn telur þó rétt að benda á að samþykkt tillögunnar jafngildir ekki fyrir fram ákvörðun um friðlýsingu svæðanna heldur er hún í reynd viljayfirlýsing frá Alþingi um að unnið verði að friðlýsingu þeirra. Um er að ræða áætlun og því felur samþykkt hennar hvorki í sér friðun né endanlega ákvörðun um mörk friðlanda.“

Það er í raun og veru alveg ótrúlegt að umhverfissinnar stjórnarandstöðunnar skuli velja sér þetta mál til að búa til ágreining eða ég ætti kannski frekar að segja „umhverfissinnar“, því að þetta er mjög þarft mál fyrir umhverfið hjá okkur hér á þessu landi og þess vegna skulum við afgreiða það frá Alþingi sem allra fyrst.