137. löggjafarþing — 50. fundur,  12. ág. 2009.

störf þingsins.

[13:57]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með þeim sem talaði hér síðast, hv. þm. Birgi Ármannssyni, þegar hann segir að þrátt fyrir að ræða hv. þm. Atla Gíslasonar hafi verið ófyrirleitin þá hafi allt slegið út þegar hv. þm. Magnús Orri Schram talaði hér.

Ég vek athygli á því, með leyfi forseta, að hann sagði: „Ef þetta eru ekki fagleg vinnubrögð þá skal ég hundur heita.“

Það er í rauninni bara spurning hvaða tegundarheiti hv. þingmaður vill þá velja sér því að það er ekki nokkur einasta leið að halda því fram að þetta séu fagleg vinnubrögð. Ég hvet menn sem iðulega tala um lýðræði, eins og hv. þm. Atla Gíslason — ef hv. þm. Atli Gíslason er í fullri alvöru að segja það að hér eigi menn, burt séð frá hvaða mál það er, ekki að taka tillit til þess að það séu kosningar á milli og menn eigi bara að taka vinnu frá síðasta þingi þá er það í það minnsta ekki mjög lýðræðisleg hugsun. Það er nú þannig að það er kosið nýtt fólk og nýir flokkar á þing. (AtlG: Ótal dæmi um þetta.) Ef menn ætla að halda því fram að það sem var gert á síðasta þingi, að það eigi bara að taka það og stimpla á nýju þingi eftir kosningar þá skulu menn alla vega ekki vera að tala mikið um lýðræði. Það er víst alveg deginum ljósara.

Það er nokkuð athyglisvert bara í þessari einu umræðu núna um störf þingsins að þá eru menn að ræða — það er afgreitt mál á 15 mínútum í nefnd. Þá kemur hér upp hv. þm. Árni Þór Sigurðsson sem gerir athugasemd við störf forseta því hann hafi ekki stoppað hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur þegar hún gagnrýndi stjórnarmeirihlutann og sagði af mikilli hógværð að hann ætlaði bara ekkert að fjalla um þetta hér, (Gripið fram í.) ekkert að fjalla um þetta mál. Þetta er fólkið sem kom og talaði um fagleg vinnubrögð og lýðræði og hvað þetta hét allt saman. Þetta eru verk þeirra. (Gripið fram í: Jafnaðarmennirnir.) (Gripið fram í: Heyr, heyr!)