137. löggjafarþing — 50. fundur,  12. ág. 2009.

samningar um gagnkvæma vernd fjárfestinga.

123. mál
[14:02]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Samningar um gagnkvæma vernd fjárfestinga eru tiltölulega nýtt fyrirbrigði sem rekja má aftur til ársins 1959 þegar fyrsti slíki samningurinn leit dagsins ljós. Í dag eru um það bil 2.500 slíkir samningar í gildi og eru flest vestræn ríki með tugi slíkra samninga. Samningar um gagnkvæma vernd fjárfestinga eru tvíhliða samningar þar sem þau ríki sem í hlut eiga leitast við með þeim að skapa sem hagstæðastar aðstæður fyrir fjárfestingar af hálfu fjárfesta annars ríkis á landsvæði hins ríkisins. Slíkum samningum er ætlað að hvetja til fjárfestinga milli þeirra ríkja sem í hlut eiga og tryggja vernd fjárfestinga og stuðla þannig að auknum viðskiptum milli ríkjanna. Ástæður þess að ríki gera slíka samninga eru m.a. að tryggja aukna vernd fjárfestinga sinna erlendis og til að laða að erlenda fjárfestingu með því að veita erlendum fjárfestum aukna vernd og skjól.

Þessir samningar kveða á um að fjárfestar hvors ríkis skulu njóta fullrar verndar og öryggis á landsvæði hins ríkisins og að ekki verði gripið til neinna óréttmætra aðgerða sem varða fjárfestingar fjárfesta hins ríkisins á landsvæðinu. Slíkir samningar fela jafnframt í sér að ekki megi taka fjárfestingar fjárfesta eignarnámi, þjóðnýta þær eða gera ráðstafanir gagnvart þeim sem hafa sömu áhrif og eignarnám eða þjóðnýting. Komi til slíkra aðgerða skal slíkt aðeins gert samkvæmt tilhlýðilegri lagalegri málsmeðferð og gegn nægilega skilvirkum bótum. Auk þess er í slíkum samningum yfirleitt alltaf mælt fyrir um að ríkið skuli tryggja að fjárfestar hins ríkisins geti yfirfært fjárfestingar sínar og ágóða sem bundinn er á landsvæði fyrrnefnda ríkisins án tafar.

Deilur milli ríkja getur hvor samningsaðili fyrir sig lagt fyrir gerðardóm sex mánuðum eftir að samningaviðræður um úrlausn deilunnar hefjast og er slíkur gerðardómur þá sérstaklega skipaður í slíkum tilvikum. Sé um að ræða deilur milli fjárfestis og ríkis getur fjárfestir lagt þær fyrir alþjóðastofnunina um lausn fjárfestingardeilna eða fyrir sérstakan gerðardóm. Í báðum tilvikum fengist endanleg lausn sem væri bindandi fyrir þau ríki og fjárfesta eftir atvikum.

Það er áhugavert að velta fyrir sér hverju það hefði breytt fyrir okkur ef slíkir samningar hefðu gilt milli okkar og Bretlands nú í haust þegar Bretar beittu okkur hryðjuverkalögum eins og allir þekkja. Þeir fjárfestar sem ráðist höfðu í beinar fjárfestingar í Bretlandi hefðu samkvæmt slíkum samningum getað farið með mál gegn breska ríkinu fyrir alþjóðlegum gerðardómi en slík mál eru að öllu jöfnu leyst fyrir alþjóðlegum gerðardómi undir yfirumsjón Alþjóðastofnunarinnar um lausn fjárfestingardeilna.

Ég vil líka í þessu sambandi vekja athygli á einu og það er að við erum með sérstakar aðstæður hér á landi. Við þurfum að laða að okkur erlent fjármagn og hluti af því gæti verið að koma á slíkum samningum til að auka traust á milli aðila sem vilja fjárfesta hér og umhverfisins á Íslandi. Við vitum að það hefur ríkt mikil tortryggni í okkar garð og hefur ríkt mikil tregða til að fjárfesta við þessar aðstæður hér á landi. Því hef ég lagt fyrir hæstv. utanríkisráðherra tvær spurningar um gagnkvæma vernd fjárfestinga.