137. löggjafarþing — 50. fundur,  12. ág. 2009.

samningar um gagnkvæma vernd fjárfestinga.

123. mál
[14:06]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Hann talaði af miklum þrótti, list og kunnáttu um fjárfestingarsamninga. Þær vangaveltur sem hv. þingmaður hafði uppi um hugsanlega möguleika okkar Íslendinga hefði slíkur samningur verið í gildi við Bretland voru einkar áhugaverðar. Mér hefur ekki enst aldur í núverandi embætti til að geta komið slíku í kring á sínum tíma. Hins vegar vil ég svara hv. þingmanni þeim fyrirspurnum sem eru á þingskjali frá honum og hv. þingmanni entist ekki tími til að koma með í máli sínu.

Fyrri spurningin er um hversu marga samninga um gagnkvæma vernd fjárfestinga við höfum gert og eru nú í gildi. Því er til að svara að við höfum gert samtals ellefu samninga, þ.e. við Síle, Egyptaland, Indland, Suður-Kóreu, Kína, Lettland, Líbanon, Litháen, Mexíkó, Víetnam og Singapúr, en Singapúr-samningurinn er reyndar hluti af fjárfestingarsamningi EFTA og Singapúr. Samningarnir við Egyptaland og Líbanon bíða fullgildingar en fyrrgreindir samningar ná allir til gagnkvæmrar verndar fjárfestinga.

Hv. þingmaður spyr sömuleiðis hvort það sé í undirbúningi að vinna að gerð fleiri slíkra samninga og ef svo er, við hvaða lönd. Frá því er skemmst að segja að rituð hafa verið drög að fjárfestingarsamningi við Úganda. Ísland og Albanía annars vegar og hins vegar Ísland og Tyrkland hafa líka skipst á skriflegum tillögum að texta fjárfestingarsamnings og er til skoðunar að hefja formlegar samningaviðræður við þau ríki. Ég hef sjálfur átt fund með utanríkisráðherra Úkraínu um gerð slíks samnings í framtíðinni og hafa gengið textar á milli Íslands og Úkraínu um það. Þær viðræður fóru hins vegar í biðstöðu þegar ákveðið var af hálfu EFTA-ríkjanna að hefja fríverslunarviðræður við Úkraínu.

Það eru ekki sem stendur í gangi formleg samskipti við önnur ríki um gerð fjárfestingarsamnings. Hins vegar hafa átt sér stað á undanförnum árum og missirum óformlegar þreifingar á milli Íslands og ýmissa ríkja sem kunna að leiða til þess að gerður verði slíkur samningur. Menn geta svo velt því fyrir sér hvenær sprettur þörf á slíkum tvíhliða fjárfestingarsamningum. Hún ræðst yfirleitt af því hversu víðtæk ákvæði eru um fjárfestingar og vernd þeirra í fríverslunarsamningum sem við eigum við viðkomandi ríki, þ.e. ef slíkum samningum er til að dreifa. Yfirleitt er það svo að ef fríverslunarsamningurinn nær bæði til stofnfjárfestinga og fjárfestingarverndar hafa menn ekki talið þörf á sérstökum fjárfestingarsamningum. Ef þessir tveir þættir eru hins vegar ekki tryggðir í þeim fríverslunarsamningum sem við höfum við ríki er hægt að bregðast við því með því að gera slíka fjárfestingarsamninga eins og hv. þingmaður ræddi áðan.

Ég vil síðan í lokin segja að undir ræðu minni hef ég aðeins verið að þenkja um hugmynd hv. þingmanns um að ef í gildi væri slíkur samningur milli okkar og Bretlands. Ég hygg að það sé alveg rétt að við hefðum átt tök á því að skjóta þeirri ákvörðun sem breska ríkisstjórnin tók í október sl. til slíks gerðardóms. Það hefði væntanlega styrkt stöðu okkar töluvert í því stríði sem háð var um þann tiltekna hluta þeirrar deilu.