137. löggjafarþing — 50. fundur,  12. ág. 2009.

samningar um gagnkvæma vernd fjárfestinga.

123. mál
[14:13]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég er ekki alls kostar sammála skýringum hv. þingmanns á fæð þeirra fjárfestingarsamninga ríkja sem við höfum gert fjárfestingarsamninga við. Þó að við séum svona aftarlega á þeirri meri þarf það ekki að endurspegla að við höfum ekki jafnmikla vernd og mörg þeirra ríkja sem eru á undan. Ástæðan er sú, eins og ég held að ég hafi drepið á í svari mínu til hv. þingmanns, að við höfum mjög marga fríverslunarsamninga við mjög öflug ríki og í mörgum þeirra er að finna ákvæði sem tryggja vernd fjárfestinga. Í þeim tilvikum sem ekki er að finna trygg ákvæði í slíkum fríverslunarsamningum hafa menn ráðist í gerð samninga af því tagi sem við ræðum hér um.

Ég er hv. þingmanni alveg sammála um að í þeim felast mjög handhæg tæki til að tryggja gagnveginn milli fjárfestinga viðkomandi ríkja, þ.e. þeirra sem mundu gera slíka samninga við okkur. Ég er líka sammála honum um að það er mjög nauðsynlegt að gera það sem hægt er til að efla fjárfestingar, ekki síst miðað við þá stöðu sem Íslendingar eru í núna.

Hv. þm. Jón Gunnarsson talaði um að eitt af því sem Íslendingar gætu gert og þyrftu að gera til að rífa sig upp úr þeim erfiðleikum sem þeir hafa lent í núna væri að reyna að laða erlend fyrirtæki hingað til lands m.a. til að nýta íslenska orku. Það er kannski hægt að skamma marga fyrir að hafa staðið sig illa í því en ég held að það sé ekki hægt að skamma þann ráðherra sem hér stendur fyrir að hafa slegið slöku við í þeim efnum. Fyrir fátt hefur sá ráðherra, þ.e. ég, verið skammaður jafnmikið og einmitt fyrir þá samninga sem ég hef gert fyrir hönd framkvæmdarvaldsins við slík fyrirtæki. Ég geri reyndar greinarmun á máli hv. þm. Jóns Gunnarssonar. Mér fannst hann vera að tala um fjárfestingarsamninga við fyrirtæki og þessi ríkisstjórn hefur líka verið að ljúka tveimur slíkum.

Að öðru leyti þakka ég hv. þingmanni fyrir þá elju sem hann sýnir við að reyna að efla (Forseti hringir.) utanríkisviðskipti Íslands og gagnkvæmar fjárfestingar okkar og annarra ríkja.