137. löggjafarþing — 50. fundur,  12. ág. 2009.

samráð við hagsmunaaðila um fyrningarleið.

26. mál
[14:27]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það er ljóst af svari hæstv. ráðherra að ekki var haft neitt samráð við hagsmunaaðila áður en framtíðarfyrningarleiðarhugmyndir ríkisstjórnarinnar voru kynntar. Hins vegar er búið að koma þessu máli í ágætisfarveg núna og ég treysti því að sú nefnd sem skipuð hefur verið eigi eftir að fara vel og vandlega fyrir þessi mál.

Vandinn er hins vegar sá að nú er skaðinn skeður. Með því að boða fyrningarleiðina hefur ríkisstjórnin sett starfsumhverfi sjávarútvegsins í uppnám. Við verðum vör við að í sjávarútveginum reyna menn að bregðast við þessu nýja ástandi með því að halda að sér höndum, hægja á við fjárfestingar o.s.frv. Og síðan er gráu bætt ofan á svart með því að ríkisstjórnin ákvað að hefja samningaviðræður við Evrópusambandið með það að markmiði að Ísland yrði aðili að því. Það má því segja sem svo að núna sé með tvöföldum hætti búið að auka mjög alvarlega á óvissuna í sjávarútveginum og var þó ekki á bætandi. Það er mjög alvarlegt og umhugsunarvert fyrir hæstv. ráðherra að þurfa að standa í því sem aðili að þessari ríkisstjórn að standa þannig að verki.