137. löggjafarþing — 50. fundur,  12. ág. 2009.

útflutningsálag á fiski.

155. mál
[14:33]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Í dag hefur verið rætt m.a. um mikilvægi sjávarútvegsins og var bent á að vægi hans fari ekki minnkandi, vægi hans hefur einmitt aukist í íslensku þjóðlífi. Hér fór hv. þm. Ásbjörn Óttarsson yfir þá erfiðu stöðu sem blasir við í sjávarútveginum hvað varðar ýmsar aðstæður og vísaði þá sérstaklega í aflasamdrátt og sömuleiðis þær ógnir sem steðja að sjávarútveginum hvað varðar fyrirætlanir stjórnvalda um fyrningarleiðir. Ég ætla ekki að fara yfir það hér, virðulegi forseti. Um það hefur verið fjallað mjög mikið af góðri ástæðu og þeir sem bera sjávarútveginn fyrir brjósti hafa haft áhyggjur af þessu og átta sig á mikilvægi hans fyrir þjóðarbúið. Þær eru mjög skiljanlegar þegar fyrningarleiðin er annars vegar.

Það hefur hins vegar farið fram hjá mörgum að í þessum mjög svo langa stjórnarsáttmála sem gengið var frá fyrir nokkrum vikum síðan — einn lengsti stjórnarsáttmáli sem saminn hefur verið — er ýmislegt, m.a. um sjávarútvegsmál. Í kaflanum efst á bls. 11, um brýnar aðgerðir er fyrst talað um að knýja á um frekari fullvinnslu afla hérlendis með því m.a. að skoða hóflegt útflutningsálag á fisk og/eða að óunninn afli verði settur á íslenskan markað. Á íslensku heitir þetta að setja skatt á útfluttan fisk og það er talið brýnt í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar. Eðlilega hefur ekki mikið farið fyrir þessu í umræðunni þar sem fyrningarleiðin hefur verið meira áberandi og önnur mál sem ég ætla ekki að nefna hér sem eru gríðarlega stór. En ég hef áhuga á því að fá að heyra hjá hæstv. ráðherra hvort hann ætli að fylgja eftir þessu atriði sem nefnt er „brýnt“ í stjórnarsáttmálanum, þ.e. að setja skatt á útfluttan fisk. Ef svo er, hvenær verður það gert og hvað verður það hár skattur? Ég held að það sé afskaplega mikilvægt að þeir aðilar sem að þessum málum koma, þar með taldir við þingmenn, að við og þjóðin fáum að vita af því.