137. löggjafarþing — 50. fundur,  12. ág. 2009.

útflutningsálag á fiski.

155. mál
[14:45]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Þetta er sá liður þingfundar sem gefur okkur þingmönnum tækifæri til að spyrja ráðherra. Það fer þannig fram að við sendum inn á skrifstofu þingsins fyrirspurnir og ráðherrar sjá þær með mjög löngum fyrirvara þannig að þeir hafa mjög góðan tíma til að undirbúa sig. Það er væntanlega gert til að enginn vafi leiki á því að fyrirspurnunum verði svarað.

Það stendur mjög skýrt í stjórnarsáttmálanum að það sé brýn aðgerð að setja útflutningsálag á fisk. Það er nákvæmlega það sem ég spurði hæstv. ráðherra um. Ég var ekki að biðja hæstv. ráðherra, með fullri virðingu, að fara í söguskýringar eða að spyrja almennt um kerfið. Ég vil bara fá að vita, og er ekki einn um það, hvort hann ætlar að framfylgja því sem þarna stendur. Virðulegi forseti. Er til of mikils mælst að fá svar við þeirri spurningu? Nú kemur hæstv. ráðherra aftur á eftir og ég mun fylgjast vel með því eins og aðrir hvort hann svari spurningunni sem hann átti að svara áðan því að hugmyndin er sú að hæstv. ráðherra svari spurningunni og við höfum tækifæri til að koma með athugasemdir okkar eða skoðanir á svarinu.

Nú er ég í þeirri stöðu að ég hef ekki hugmynd um hvað hæstv. ráðherra ætlar að gera í þessu máli af því að hann ákvað að fylla ræðutíma sinn án þess að svara þessu einu orði. Virðulegi forseti. Það er ekki til of mikils mælst að hæstv. ráðherra svari þeirri spurningu sem hann fékk senda fyrir mjög löngu síðan og er mættur hér til að svara?