137. löggjafarþing — 50. fundur,  12. ág. 2009.

Háskólinn á Akureyri.

61. mál
[15:03]
Horfa

menntamálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þm. Birki Jóni Jónssyni og þakka þessa umræðu. Ég vil segja það fyrst, af því að hann nefndi orðið „samvinnu“, að á fundi í síðustu viku hitti ég rektora allra háskóla utan einn sem ekki komst á staðinn. Meðal þeirra sem mættir voru var nýr rektor Háskólans á Akureyri og ég held að það sé einmitt mikill vilji til aukins samstarfs. Auðvitað hefur verið talsvert samstarf en það hefur líka verið mikil samkeppni, ekki síst um nemendur og að trekkja að nemendur, en ég held að við séum á ákveðnum tímamótum, að háskólasamfélagið vilji leggja sitt af mörkum fyrir þjóðina og hugsi líka um hvernig það verði best gert. Það gerir það, held ég, einmitt með þessum hugmyndum um samvinnu og annað slíkt. Nú er ég búinn að segja það orð tvisvar í þessari ræðu, hv. þm. Birki Jóni Jónssyni til upplýsingar.

Ég held að það verði mjög áhugavert að sjá niðurstöðu þess rýnihóps sem nú fer að ljúka störfum. Ég á ekki von á því, eins og ég sagði hér í mínu fyrra innleggi, að farin verði sú leið að sameina í tvo háskóla eins og nefnt var í skýrslu erlendu sérfræðinganna sem rædd var hér fyrr. Ég á fremur von á því að við horfum til þess sem ég nefndi áðan, aukinnar samvinnu um stoðþjónustu, til samstarfs, en um leið verði lögð áhersla á þetta faglega sjálfstæði stofnana. Ég á von á því að það muni nást allnokkur sátt um þá leið sem reynum að fara í þessum efnum. Ég þekki vel hug skólafólks fyrir norðan og ég held að ég geti fullvissað það um að ég ber mikla virðingu fyrir starfi þess og á ekki von á öðru en að þar verði áfram mjög öflugt starf í sama anda og verið hefur. (BJJ: Þú ert frábær ráðherra.)