137. löggjafarþing — 50. fundur,  12. ág. 2009.

eignarhald á fjölmiðlum.

152. mál
[15:05]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég er hér með fyrirspurn til hæstv. menntamálaráðherra en vegna fyrirspurnatíma þar sem ég og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skiptumst á orðum vil ég upplýsa þingheim um að ég ákvað að fylgja því eftir að fá svar við þeirri spurningu sem ég bar fram en fékk ekki svar við. Ég sendi inn skriflega fyrirspurn og mun sjá hvort ég fæ svar við henni. Eins og við vitum er hugmyndin sú að hæstv. ráðherrar svari hér og ég er ekki í neinum vafa um að hæstv. menntamálaráðherra mun svara þeirri spurningu sem ég ætla að leggja fyrir hana.

Ég er enn og aftur og verð hér í dag með hugann við þennan langa stjórnarsáttmála sem inniheldur margt athyglisvert ef einhver les hann. En þar er mikið magn orða og ýmislegt sem þarna leynist sem ég held að vert sé að skoða og ræða hér. Eitt af því sem þar kemur fram, virðulegi forseti, er á bls. 14.

Með leyfi forseta, segir í einum af þeim punktum sem þar eru að heildstæð lög um fjölmiðla verði sett þar sem ritstjórnarlegt sjálfstæði og réttur blaðamanna eru tryggð.

Nú þekkjum að það hefur verið mikil umræða um að setja lög um fjölmiðla og menn hafa bent á að ein af þeim mistökum sem gerð voru og orsakaði m.a. það ástand sem upp kom hér var að sú umgjörð sem var um fjölmiðla í landinu var ekki fullnægjandi. Við þekkjum það að sett voru fjölmiðlalög hér sem forseti lýðveldisins neitaði að skrifa undir. Niðurstaðan varð þá sú að ekki var farið út í neina slíka lagasetningu og hvort sem það var ástæðan — alla vega hefði það ekki verið hægt ef fjölmiðlalögin hefðu verið sett — var það samt sem áður þannig að þær viðskiptablokkir sem hér voru stærstar áttu, held ég, allar sinn fjölmiðil.

Hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fyrrverandi menntamálaráðherra, setti af stað vinnu með fulltrúum allra flokka. Menn komust þar að ákveðinni niðurstöðu þar sem m.a. var tekist á um eignarhald en ekki náðist sátt um að klára það í þinginu. Það kom mér þess vegna á óvart, þar sem menn eru með þetta inni í stjórnarsáttmálanum, að þar skuli ekki einu orði vikið að eignarhaldinu. Ég hef ekki heyrt á neinum fulltrúum stjórnmálaflokkanna sem hafa rætt þessi mál að menn hafi talið ástæðu til annars en að setja einhverjar reglur um eignarhald og það er vel þekkt í þeim löndum sem við berum okkur saman við.

Þess vegna vildi ég spyrja hæstv. ráðherra: Hvers vegna er ekki gert ráð fyrir reglum um eignarhald á fjölmiðlum í þeim fjölmiðlalögum sem ætlunin er að setja samkvæmt stjórnarsáttmálanum og eiga að tryggja ritstjórnarlegt sjálfstæði (Forseti hringir.) og rétt blaðamanna?