137. löggjafarþing — 50. fundur,  12. ág. 2009.

eignarhald á fjölmiðlum.

152. mál
[15:08]
Horfa

menntamálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir fyrirspurnina. Það er vissulega rétt sem fram kemur hjá honum að í stjórnarsáttmálanum segir að stefna ríkisstjórnarinnar sé að setja heildstæð lög um fjölmiðla þar sem ritstjórnarlegt sjálfstæði og réttur blaðamanna eru tryggð. Um þetta er fjallað í kaflanum samstarfsyfirlýsingarinnar sem ber yfirskriftina „Lýðræði og mannréttindi“ en þar er sem sagt rætt um nauðsyn þess að slík lög verði sett.

Í raun og veru er þarna tæpt á mun stærra máli, þ.e. heildstæðri fjölmiðlalöggjöf, og er ekki ástæða til að gagnálykta á þann veg að ekki verði gert ráð fyrir einhverjum reglum um eignarhald á fjölmiðlum í þeim fjölmiðlalögum sem nú eru í undirbúningi.

Ég reikna með því að niðurstöður þverpólitískrar nefndar um fjölmiðla sem skilaði skýrslu vorið 2005, verði hafðar til hliðsjónar við smíði fjölmiðlafrumvarps. Meðal þess sem þar kom fram var að settar yrðu reglur sem tryggðu gagnsæi eignarhalds á fjölmiðlum, að mótaðar yrðu reglur um ritstjórnarlegt sjálfstæði. Þá voru settar fram ákveðnar hugmyndir um takmarkanir sem eru nú í skoðun í menntamálaráðuneytinu þar sem unnið er að undirbúningi þessarar heildstæðu löggjafar.

Mig langar að nefna það, af því að þetta mál er allstórt, að þau lög sem helst snúa að fjölmiðlum á Íslandi nú eru annars vegar útvarpslög, sem byggja að miklu leyti á Evróputilskipunum um sjónvarp án landamæra, og hins vegar lögum um prentrétt. Þessi lög heyra undir tvö ráðuneyti, útvarpslög undir menntamálaráðuneyti og lög um prentrétt undir dómsmálaráðuneyti. Nokkurt misræmi er að finna í þessum lögum þegar kemur t.d. að ábyrgðarreglum. Ég tel því mjög mikilvægt að þessi lög verði skoðuð samhliða og að reynt verði að samræma þær reglur sem þar er að finna um fjölmiðla.

Í lok árs 2007 voru gerðar grundvallarbreytingar á Evróputilskipun frá árinu 1989 um sjónvarp án landamæra og kemur það m.a. til vegna þeirra gríðarlegu breytinga sem orðið hafa á fjölmiðlamarkaði m.a. vegna tilkomu stafrænnar og gagnvirkrar miðlunar. Undanfarið eitt og hálft ár hefur verið unnið að því í ráðuneytinu að innleiða nýja tilskipun ESB um hljóð- og myndmiðlun auk þess sem talið var bæði nauðsynlegt og eðlilegt að endurskoða löggjöfina í heild sinni samhliða lögleiðingu þeirra breytinga sem efni tilskipunarinnar felur í sér.

Mig langar aðeins að tæpa á því af hverju við erum að fara í heildarendurskoðun samhliða þessari innleiðingu. Í fyrsta lagi hefur þróunin auðvitað verið mjög hröð og tækniframfarir miklar á þessu sviði frá setningu gildandi útvarpslaga, sem eru frá árinu 2000, svo ekki sé minnst á lögin um prentrétt sem ég nefndi hér áðan, sem eru frá árinu 1956. Gildandi lög eru um margt úrelt, þar með talið gildissvið þeirra og viðmið, og má þar nefna að grundvallarhugtök eins og sjónvarp og sjónvarpsstöð eru skilgreind með of þröngum hætti í gildandi löggjöf. Bann er lagt við því að byggja upp fjölrásasjónvarp á því tíðnisviði sem nágrannaþjóðir okkar nota, skortur er á jafnræði milli sjónvarpsstöðva af þeirri einföldu ástæðu að gildandi lög gera ekki ráð fyrir tækniframförum, og þá er ekki gert ráð fyrir tilkomu internets í gildandi prentlögum. Ef við reiknum með því að það sé ekki bóla er ágætt að fara að koma því fyrir í lögum.

Frá gildistöku núgildandi laga hafa átt sér stað miklar breytingar á samsetningu og gerð íslensks fjölmiðlamarkaðar og það hafa, eins og hv. þingmaður kom inn á áðan, miklar umræður verið í samfélaginu um frekari reglusetningu og skipan mála á þessu sviði. Tvær viðamiklar skýrslur um málefnið hafa verið unnar á síðustu árum og þær tillögur sem þar hafa komið fram hafa auðvitað sumar hverjar verið umdeildar en aðrar hefur verið mikil sátt um og varða grundvallaratriði í rekstri og starfsumhverfi fjölmiðla sem eiga erindi í ný lög á þessu sviði.

Það liggur líka fyrir að flest ríki sem við berum okkur saman við eru komin mun lengra í þróun þess regluverks og umhverfis sem fjölmiðlar 21. aldarinnar kalla á og er nauðsynlegt að bregðast við nú þegar þannig að við drögumst ekki frekar aftur úr grannríkjum okkar um mótun reglna og starfsumhverfis sem verður æ alþjóðlegra og óháð landamærum.

Ákvæði þessarar nýju Evróputilskipunar eru viðamikil, útheimta verulegar breytingar á gildandi lögum. Við samningu frumvarpsins hefur þótt nauðsynlegt að víkka sjóndeildarhringinn frá þeirri afmörkun sem liggur gildandi útvarpslögum og lögum og prentrétt til grundvallar. Útheimtir þetta auk smíði nýrrar heildarlöggjafar breytingu á ákvæðum nokkurra annarra laga svo sem höfundarlaga.

Eins og greina má af því yfirliti sem ég hef nú hraðspólað allnokkuð yfir er í þessum nýju heildstæðu lögum um fjölmiðla tæpt á mjög mörgu öðru en eingöngu því sem nefnt er í stjórnarsáttmála um ritstjórnarlegt sjálfstæði en þótti sérstök ástæða til að nefna þar. Ákvæði um reglur um eignarhald á fjölmiðlum eru til skoðunar í ráðuneytinu og verður þá reynt að byggja á þeirri vinnu sem fyrir liggur en ég reikna líka með því að frumvarpið verði kynnt mjög ítarlega hagsmunaaðilum og almenningi áður en það kemur til umræðu hér á þingi, vonandi á haustmánuðum.