137. löggjafarþing — 50. fundur,  12. ág. 2009.

yfirtaka fyrirtækja.

92. mál
[15:22]
Horfa

viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Virðulegi forseti. Mér hefur borist fyrirspurn í þremur liðum frá hv. þm. Árna Johnsen. Í fyrsta lagi spurði þingmaðurinn um hvaða aðferðafræði hafi verið beitt við yfirtöku fyrirtækja af hálfu banka og skilanefnda. Vegna þessa er rétt að taka fram að endurskipulagning atvinnufyrirtækja á vegum bankanna eða annarra fjármálafyrirtækja er flókið og umfangsmikið verkefni og raunar eitt það vandasamasta sem Íslendingar standa núna frammi fyrir. Það er nauðsynlegt, ekki bara vegna þeirra sem eiga beinan hlut að máli heldur fyrir efnahagslífið allt, að skýrar og sanngjarnar verklagsreglur séu hafðar að leiðarljósi þegar fyrirtæki eru endurskipulögð eða fjárhagur þeirra og þau jafnvel yfirtekin af fjármálafyrirtækjum.

Eftir því sem næst verður komist hafa bankar og eftir atvikum sparisjóðir, skilanefndir og aðrir slíkir aðilar komið sér upp nokkuð skilvirkum og eðlilegum verklagsreglum um endurskipulagningu fyrirtækja þótt vitaskuld séu þær ekki fullkomnar frekar en önnur mannanna verk og verða eðli máls samkvæmt aldrei óumdeildar. Það er einfaldlega þannig í málum sem þessum þar sem tekist er á um mikla hagsmuni að sitt sýnist hverjum og aldrei er hægt að gera svo öllum líki. Þessar reglur eru, eftir því sem næst verður komist, alla jafnan aðgengilegar á vefjum viðkomandi fyrirtækja m.a. og er vísað til þeirra ef menn vilja kynna sér þær nánar.

Í öðru lagi spurði þingmaðurinn hvort reynt hafi verið til hins ýtrasta að láta viðkomandi fyrirtæki standa. Viðskiptaráðuneytið fær þær upplýsingar frá bönkunum og skilanefndunum að það sé alla jafnan raunin, að reynt sé til hins ýtrasta að aðstoða skuldsett fyrirtæki með skuldbreytingum og öðrum þeim leiðum sem færar kunna að vera til að ekki komi til yfirtöku. Yfirtaka er þrautarúrræði í flestum tilfellum enda er það yfirleitt ekki í hag banka að reka fyrirtæki hvort sem það er um lengri eða skemmri tíma ef hjá því er hægt að komast. Þó skal bent á að rök standa til þess að sum fyrirtæki, eins og t.d. mjög skuldsett eignarhaldsfélög sem eru hvorki atvinnuskapandi, enda með lítinn sjálfstæðan rekstur, né verðmætaskapandi, ættu að fara gjaldþrotaleiðina frekar en vera yfirtekin af bönkum. Það er a.m.k. vandséð að það sé þjóðhagslega hagkvæmt að halda þeim gangandi nema e.t.v. í undantekningartilfellum þótt það geti verið þjóðhagslega hagkvæmt og sé það væntanlega í mörgum tilfellum, jafnvel flestum, að halda þeim rekstrarfélögum gangandi sem eignarhaldsfélögin eiga eða hafa átt.

Í þriðja lagi spurði þingmaðurinn hvort jafnræðis hafi verið gætt. Vegna þessa er rétt að taka fram að viðskiptaráðuneytið leggur áherslu á að jafnræðis sé gætt hjá bönkum og skilanefndum við fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja. Þær upplýsingar sem ráðuneytið fær úr fjármálakerfinu gefa almennt ekki tilefni til að efast um að svo sé þótt vissulega sé eins og áður var nefnt lítil sátt í sumum tilfellum um aðgerðir gagnvart einstökum fyrirtækjum. Hafa ber í huga að framtíð viðskiptabankanna ræðst m.a. af því hversu vel þeim tekst að halda utan um og styðja viðskiptavini sína og sýna þeim sanngirni um leið og vörður er staðinn um viðskiptahagsmuni bankans.