137. löggjafarþing — 50. fundur,  12. ág. 2009.

fyrirtæki yfirtekin af bönkum og skilanefndum.

93. mál
[15:30]
Horfa

viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Virðulegi forseti. Mér hefur borist fyrirspurn í tveimur liðum frá hv. þm. Árna Johnsen.

Í fyrsta lagi spurði þingmaðurinn um hvaða fyrirtæki hafi verið yfirtekin af bönkum og skilanefndum með beinum eða óbeinum hætti. Ráðuneytið sendi fyrirspurn þessa til banka og skilanefnda og óskaði upplýsinga. Því miður varð niðurstaðan frekar rýr. Neituðu sumir aðilar að veita upplýsingar um hvaða fyrirtæki hefðu verið yfirtekin og báru við þagnarskylduákvæðum laga um fjármálafyrirtæki. Ráðuneytið hefur því ekki fullnægjandi upplýsingar til að svara fyrirspurninni. Þó má benda á að allmörg stærri fyrirtæki, og reyndar smærri einnig, hafa þegar verið nefnd opinberlega í fjölmiðlum en vitaskuld er það ekki tæmandi upptalning.

Í öðru lagi spurði þingmaðurinn um hverjir skipi stjórn viðkomandi fyrirtækja og í umboði hverra. Því er til að svara að fulltrúar þeirra banka eða skilanefnda sem yfirtaka fyrirtækin skipa stjórnarmenn og er í sjálfu sér ekki hægt að vænta annars eða gera kröfu um annað en að þeir velji hæfasta fólkið sem völ er á í hverju tilfelli. Ég þekki það að oft er það fólk sem tengist viðkomandi rekstri frá fyrri tíð, sérstaklega ef um smá fyrirtæki er að ræða enda oft ekki völ á öðrum sem geta tekið við og haldið áfram viðkomandi rekstri með góðu móti en það er þó vitaskuld ekki einhlítt. Í sumum tilfellum kemur alveg nýtt fólk að stjórn viðkomandi fyrirtækja.

Þingmaðurinn nefndi sérstaklega einn væntanlega starfsmann banka eða skilanefnda sem sinnir stjórnarsetu í 40 fyrirtækjum. Þetta er eitthvað sem mér var ekki kunnugt um áður en þingmaðurinn benti á þetta. En ég get tekið undir með hv. þingmanni að mér þykir þetta dálítið sérstakur ráðahagur nema ef um er að ræða fjölmörg fyrirtæki sem í reynd eru ekki með neinn rekstur þannig að þetta sé bara formsatriði frekar en viðkomandi maður sé í raun að stjórna 40 fyrirtækjum. Það held ég að sé óhætt að fullyrða að sé öllum mönnum ofviða, sama hversu duglegir þeir eru.