137. löggjafarþing — 50. fundur,  12. ág. 2009.

fyrirtæki yfirtekin af bönkum og skilanefndum.

93. mál
[15:38]
Horfa

viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Virðulegi forseti. Ég held að ég geti tekið undir flest ef ekki allt af því sem hv. þingmenn nefndu í ræðum sínum. Hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson benti réttilega á hættuna á spillingu við aðstæður sem þessar. Ég ætla ekki að saka neinn um spillingu héðan úr ræðustólnum en það er alveg augljóst að ástand eins og það sem við búum við og munum fyrirsjáanlega búa við á næstu mánuðum og missirum býr til freistingar. Við, þ.e. hið háa Alþingi, framkvæmdarvaldið og eftirlitsstofnanir einnig verða að sjá til þess að umgjörð efnahagsins sé slík að menn falli ekki fyrir þessum freistingum en geri þeir það verði það upplýst og þeim refsað. Það stendur einfaldlega upp á okkur.

Ég hef ekki upplýsingar um hversu mörg þeirra fyrirtækja sem bankar, skilanefndir eða sparisjóðir eða aðrir slíkir aðilar hafa tekið yfir, eru enn í rekstri en ég vil benda á vegna almennra fyrirspurna um hvað sé hægt að fá upplýsingar um og hvað ekki, um stjórnarsetu og annað, að bankaleyndin umlykur ekki alveg allt. Þessi fyrirtæki eins og önnur verða vitaskuld að senda inn tilkynningar í stjórn til fyrirtækjaskrár og þau verða að birta ársreikninga eins og önnur þannig að það er hægt að fylgja þar að ákveðnu marki með því sem er að gerast. En það er vissulega veruleg handavinna að gera það með því að fylgjast með tilkynningum til aðila eins og fyrirtækjaskrár og eftir atvikum ársreikningaskrár.

Ég vil enn fremur benda á að þótt viðskiptaráðuneytið geti ekki lögum samkvæmt knúið banka eða önnur fjármálafyrirtæki til að upplýsa um eitthvað sem telst falla undir bankaleynd getur Fjármálaeftirlitið, sem er undirstofnun ráðuneytisins, gert það og það hefur væntanlega eftirlit með þessum málum m.a. í krafti þess valds.