137. löggjafarþing — 50. fundur,  12. ág. 2009.

vátryggingafélög.

131. mál
[15:48]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Vigdís Hauksdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. viðskiptaráðherra mjög góð svör. Það var ekki svo að ég ætlaði sérstaklega að spyrja um Landhelgisgæsluna, ég var að nota þetta sem rök í máli mínu þegar tryggingafélag er komið á þann stað í rekstri sínum að vera undir eftirliti Fjármálaeftirlitsins og vissulega var Sjóvá búin að vera það í tvö ár. Þess vegna undraðist ég að slíkir samningar væru gerðir af hálfu ríkisins við félag sem væri það illa statt.

Hæstv. ráðherra telur að eftirlitið hafi ekki brugðist. Mér þykir það mjög einkennilegt ef eftirlitið hefur ekki brugðist með þeim tveimur tryggingafélögum sem voru á þessari undanþágu því að hlutirnir gerðust árin 2007, 2008 og 2009. Einhvers staðar hefur pottur verið brotinn, enda hefur það komið fram í fréttum hvernig málum var komið hjá tryggingafélaginu Sjóvá. Eins og ég kom inn á í byrjun, voru bótasjóðirnir veðsettir og algerlega án heimildar og eins og ráðherra benti á og alþjóð veit, eru málefni þessa tryggingafélags komin til sérstaks saksóknara.

Ég minntist á það í byrjun, og þessi tæplega þriggja mánaða gamla fyrirspurn sýnir það enn og aftur, að kannski hefði verið hægt að vekja athygli þjóðarinnar og þingsins á þessu fyrr ef ekki væri þetta sleifarlag á þingsköpum og stjórn þessa þings undir framkvæmdarvaldinu og þeirri ríkisstjórn sem nú situr. Ég tek alveg heils hugar undir að auðvitað er þetta ekki hæstv. viðskiptaráðherra að kenna heldur framkvæmdarvaldinu öllu og rengi ég hann ekki um að hann hafi verið tilbúinn með þessi svör. En það er samt svolítið einkennilegt að verða vitni að því að ríkið standi í kennitöluflakki (Forseti hringir.) en svona var hagsmunum ríkisins jafnvel best borgið. Ég virði þá skoðun en þetta mál er allt saman mjög sorglegt.