137. löggjafarþing — 50. fundur,  12. ág. 2009.

raforkukostnaður í dreifbýli.

122. mál
[15:52]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Með nýjum raforkulögum á árinu 2003 urðu miklar skipulagsbreytingar í rafmagnsmálum landsmanna. Þessi lagasetning var gerð í framhaldi af yfirtöku okkar á tilteknum tilskipunum Evrópusambandsins og var á sínum tíma mjög umdeild.

Það má segja sem svo að þessi raforkulög hafi falið það í sér að horfið var frá því fyrirkomulagi sem gilt hafði árum og áratugum saman mikil jöfnun varðandi raforkuverð hafði átt sér stað, bæði innan fyrirtækja og eins á milli einstakra notenda að raforku. Með þeim raforkulögum sem þá voru sett má segja að horfið hafi verið frá þessu. Niðurstaðan varð sú að hafa ætti þessa verðlagningu gegnsærri og ef menn vildu síðan lækka orkukostnað þar sem hann yrði hærri fyrir vikið yrði það gert með þeim hætti að auka niðurgreiðslu á raforku á þeim svæðum.

Í framhaldi af þessari lagasetningu voru síðan sett önnur lög, þ.e. lög um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku sem tóku gildi 1. janúar 2005, þar sem segja má að þessi ætlun löggjafans hafi verið betur römmuð inn. Þar var með tilteknum hætti kveðið á um hvernig staðið yrði að lækkun á orkukostnaðinum og í því sambandi var ákveðið að taka mið af hæstu gjaldskrá dreifiveitu að dreifbýlisgjaldskrám undanskildum, að niðurgreiðslan mætti ekki vera meiri en svo að verðið í dreifbýlinu, þ.e. dreifbýlustu svæðum, yrði aldrei lægra en svaraði til hæstu gjaldskráa hjá dreifiveitum í þéttbýli. Í framhaldi af þessu voru síðan settar ýmsar reglugerðir til að ramma þetta mál betur inn og sérstök gjaldskrá sem gildir varðandi raforkuframleiðslu og lækkun á orkukostnaði þar sem dreifbýlissvæðin voru skilgreind. Þau voru skilgreind þannig að það væri strjálbýli þar sem byggju innan við 200 manns og þeir nytu ekki tengingar við flutningskerfi eða stofnkerfi.

Verðlag raforku hefur oft verið til umræðu í þinginu og sérstaklega þróun þess frá því að raforkulögin voru sett. Í því sambandi hefur sitt sýnst hverjum en umræðan hefur kannski minna snúið að því sem eru afmarkaðri þættir þessa máls, þ.e. þróun orkuverðsins á þessum dreifbýlustu stöðum þar sem búa innan við 200 manns. Þess vegna hef ég leyft mér, virðulegi forseti, að leggja fyrirspurnir til hæstv. iðnaðarráðherra til að varpa ljósi á þetta mál. Menn hafa kvartað undan því að þróunin hafi verið mjög óhagstæð fyrir þessi dreifbýlli svæði og þess vegna er fróðlegt að fá upplýsingar um það hvernig hin raunverulega þróun orkukostnaðarins hefur verið á þessum svæðum í samanburði við önnur svæði í landinu.