137. löggjafarþing — 50. fundur,  12. ág. 2009.

raforkukostnaður í dreifbýli.

122. mál
[15:55]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Hér er um að ræða mjög mikilvægt mál og margumrætt og það er gott að fá tækifæri til að koma hér og svara fyrirspurn um þróun á raforkukostnaði í dreifbýli frá árinu 2005 eða frá því að lögum var breytt.

Fyrsta spurningin er um þróunina, hver hún hafi verið í dreifbýli frá árinu 2005 í samanburði við raforkukostnað í þéttbýli. Er skemmst frá því að segja að á tímabilinu 2005–2009 hefur meðaltalsverð raforku í þéttbýli hækkað um 1,08 kr. Það er úr 7,12 kr. á hverja kílóvattstund í 8,20. Dreifiveiturnar hafa hækkað mismikið á umræddu tímabili, allt frá 3,3% hjá Orkuveitu Húsavíkur sem þó er dýrasta veitan þrátt fyrir minnstu hækkunina á tímabilinu upp í 28,3% á hækkun Orkubúi Vestfjarða. En meðaltalshækkun á þessu tímabili allra dreifiveitna í þéttbýli nam 15,8%. Einungis Orkubú Vestfjarða og Rarik hafa leyfi Orkustofnunar til að hafa sérstaka gjaldskrá fyrir dreifbýli. Á umræddu tímabili hækkaði meðaltalsverð veitnanna í dreifbýli um 2,88 kr. á hverja kílóvattstund, úr 7,43 í 10,31 eða um 38,7%. Rétt er að benda á að meiri munur er á milli hæsta og lægsta verðs í þéttbýli, sem er 1,41 kr., en á milli hæsta verðs í þéttbýli og lægsta verðs í dreifbýli, sem er þá 1,17 kr.

Í öðru lagi spyr hv. þingmaður hversu miklum fjármunum á föstu verðlagi hafi árlega verið varið til að lækka raforkukostnað í dreifbýli á fyrrgreindu tímabili. Á árunum 2005–2009 námu heildargreiðslur vegna húshitunar og vegna dreifingar raforku í dreifbýli samtals 3.869,5 millj. kr., sem er um 53% af heildarniðurgreiðslum sem alls námu 7,3 milljörðum kr. á tímabilinu 2005–2009 miðað við verðlag ársins núna miðað við janúar 2009.

Eins og fram hefur komið er fjárhæð til niðurgreiðslna ákveðin í fjárlögum á hverju ári. Niðurgreiðslur mega þó ekki leiða til lægra verðs í dreifbýli eins og fram kom hjá hv. þingmanni en sem nemur viðmiðunarmörkum sem settar eru í reglugerð af ráðherra og við ákvörðun viðmiðunarmarka skal taka mið af hæstu gjaldskrá dreifiveitu að dreifbýlisgjaldskrám undanskildum. Það er líka hægt að koma því á framfæri að þegar við ræðum um niðurgreiðslur vegna húshitunar er um að ræða 9% heimila eða um 30 þúsund manns.

Þá er í þriðja lagi spurt hvort ætlunin sé að gera frekari ráðstafanir til að lækka sérstaklega raforkukostnað í dreifbýli. Þá verður að horfa til þess að niðurgreiðslur eru ekki eina leiðin til að draga úr húshitunarkostnaði. Og til að reyna að lækka húshitunarkostnað þeirra sem búa á köldustu svæðunum og draga úr niðurgreiðslum ríkissjóðs hefur á undanförnum árum verið lögð mjög mikil áhersla á að stuðla að uppbyggingu hitaveitna víðs vegar um landið.

Í tengslum við mótvægisaðgerðir fyrri ríkisstjórnar vegna þorskaflasamdráttar var úthlutað af orku samtals 172 millj. til jarðhitaleitar á 29 stöðum þar sem hitaveitu nýtur ekki. Ef mótframlag styrkumsækjanda er tekið með stefnir í að um 300 millj. kr. hafi verið varið í jarðhitaleit á síðustu tveimur árum. Þá hefur ríkissjóður jafnframt styrkt uppbyggingu nýrra hitaveitna og stækkunar starfandi hitaveitna með það fyrir augum að draga úr húshitunarkostnaði á þessum köldustu svæðum.

Á síðasta þingi voru samþykktar breytingar á lögum um niðurgreiðslur sem gerðu mögulegt að verja auknum fjármunum í orkusparnaðaraðgerðir. Breytingunum er ætlað að draga úr húshitunarkostnaði íbúa á köldum svæðum og draga úr kostnaði ríkissjóðs til lengri tíma litið við að niðurgreiða húshitunarkostnað og jafnframt að hvetja til atvinnuskapandi verkefna. Á grundvelli þessarar breytingar hafa verið auglýstir styrkir til að ráðast í endurbætur á húsnæði og orkuöflun sem leiðir til lægri húshitunarkostnaðar svo sem notkun varmadælna sem skilað hafa afar góðum árangri og í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að gerð verði áætlun um orkusparnað jafnt fyrir atvinnufyrirtæki og heimili.