137. löggjafarþing — 50. fundur,  12. ág. 2009.

neyslustaðall.

99. mál
[18:01]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Frú forseti. Eftir margra ára baráttu Jóhönnu Sigurðardóttur, þáverandi hv. þingmanns, var unnin skýrsla í viðskiptaráðuneytinu um svokallaðan neyslustaðal. Neyslustaðall var í opinberum viðmiðum um áætlaðan framfærslukostnað heimila og hefur verið tekinn upp víða erlendis, þar á meðal á Norðurlöndum, í Bandaríkjunum og víðar. Skýrslan var tilbúin í október 2006 líkt og kom fram í svörum þáverandi viðskiptaráðherra, Jóns Sigurðssonar, við fyrirspurn áðurnefnds þingmanns og núverandi hæstv. forsætisráðherra. Við það tækifæri sagði hæstv. forsætisráðherra, með leyfi forseta:

„Hér á landi er þetta allt í einum hrærigraut. Hið opinbera tekur mið af a.m.k. fimm mismunandi framfærslugrunnum við ákvörðun bóta, lána, fjárhagsaðstoðar og styrkveitinga. Má þar nefna tryggingakerfi, fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, Lánasjóð íslenskra námsmanna, Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna, Íbúðalánasjóð og lánastofnanir auk þess sem Hagstofan gerir reglulegar neyslukannanir.“

Í áðurnefndri skýrslu frá viðskiptaráðuneytinu kemur fram að ekki er nauðsynlegt að gera lagabreytingar eða setja ný lög til að taka upp svona neyslustaðal, heldur virðist þetta fyrst og fremst vera í höndum framkvæmdarvaldsins. Nefndin lagði einnig til tillögur og kostnaðaráætlun um með hvaða hætti hægt sé að útfæra slík viðmið án óhóflegs stjórnsýslukostnaðar.

Stuttu síðar yfirgaf Framsóknarflokkurinn viðskiptaráðuneytið og ný ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks tók við. Lítið hefur heyrst af hugmyndum um opinberan neyslustaðal síðan þá þrátt fyrir að hæstv. forsætisráðherra hafi þá strax tekið sæti í ríkisstjórn og sitji nú í þeirri þriðju, nú sem forsætisráðherra og verkstjóri. Því spyr ég hæstv. forsætisráðherra: Má vænta þess að ríkisstjórnin móti neyslustaðal samkvæmt tillögum í skýrslu á vegum viðskiptaráðuneytisins frá því í október 2006? Er fyrirhugað að endurvekja hugmyndina um að neyslustaðall nái til allra opinberra aðila sem þiggja bætur, lán, styrki eða aðrar greiðslur á neysluviðmiðum og hefur kostnaður við gerð og viðhald slíks neyslustaðals verið reiknaður aftur frá því sem var í áðurnefndri skýrslu?