137. löggjafarþing — 50. fundur,  12. ág. 2009.

neyslustaðall.

99. mál
[18:07]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Eygló Harðardóttir) (F):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra kærlega fyrir svör hennar. Mér hefur þótt mjög gaman og athyglisvert að leita í smiðju hennar varðandi þau mál sem hún lagði áherslu á á sínum langa og góða ferli sem þingmaður á þinginu. Þetta er eitt þeirra mála sem mér þótti sérstaklega áhugavert þegar ég fór að skoða það. Áhugi minn á neyslustaðli vaknaði einmitt í framhaldi af því þegar Seðlabankinn ákvað upp á sitt eindæmi að greiðslubyrði lána ætti að vera undir 30% af ráðstöfunartekjum til að teljast viðráðanleg. Þegar menn fóru síðan að spyrja hvaðan þeir hefðu þessa tölu og hvernig þeir gætu ákveðið að þetta væri viðráðanlegt virtist ekki vera hægt að benda á nein viðmið og þá sérstaklega ekki opinber viðmið. Ég tel að sjaldan eða aldrei hafi verið mikilvægara en núna að móta sameiginlegan neyslustaðal fyrir hið opinbera. Það þarf ekki endilega að vera þannig að verið sé að skipa opinberum stofnunum eða einkaaðilum að nota þann staðal en hann væri þá til, hann væri sameiginlegur fyrir alla og byggði á góðum gögnum. Bæði hæstv. félagsmálaráðherra og hæstv. menntamálaráðherra hafa bent á þá neikvæðu hvata sem eru í núverandi kerfi, að það eru mismunandi framfærslugrunnar fyrir atvinnuleysisbætur og námslán þannig að það er lítill eða enginn hvati fyrir atvinnulaust fólk að hefja nám þar sem munar 50 þús. kr. á því hvort maður er á námslánum eða á atvinnuleysisbótum. Ýmsir hafa líka velt því fyrir sér hvort hin mikla fjölgun öryrkja á undanförnum árum sé að einhverju leyti tengd efnahagslegum hvötum, þ.e. hvers vegna farið er af atvinnuleysisbótum á örorkubætur. Ég tel skipta mjög miklu máli að þetta sé unnið áfram og fagna því að því sé komið skýrt á framfæri við viðskiptaráðherra.