137. löggjafarþing — 50. fundur,  12. ág. 2009.

neyslustaðall.

99. mál
[18:09]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Mér finnst ánægjulegt að heyra að hv. þingmaður skuli verja einhverju af sínum dýrmæta tíma í að skoða þær tillögur sem ég hef lagt fram gegnum árin. Ég segi það gagnvart þessari tillögu að ég hef lagt mikla áherslu á það að hún nái fram að ganga vegna þess að eins og hv. þingmaður nefnir eru hér margvíslegir framfærslugrunnar í stjórnkerfinu eftir því hvað menn fást við hverju sinni. Þeir eru mjög mismunandi og getur munað mjög miklu hvaða framfærslugrunna er miðað við, hvort það er fjárhagsaðstoð, styrkveitingar, hvort það er í skattakerfinu, tryggingakerfinu eða bótakerfinu, þannig að það er virkilega þörf á því að taka á þessu máli og ítreka ég þakklæti mitt til hv. þingmanns fyrir að taka það upp.

Hv. þingmaður nefndi viðmið sem Seðlabankinn hefði sett fram varðandi 30% af ráðstöfunartekjum sem miðað er við þegar rætt er um greiðslubyrði. Þetta er tala sem ég þekki frá fyrri tíð. Mig minnir að það hafi verið í húsbréfakerfinu sem miðað var við að þegar um væri að ræða greiðslumat færi greiðslubyrðin ekki fram úr 30% af ráðstöfunartekjum þó að slíkt viðmið hafi á síðari árum lækkað eitthvað að því er varðar viðmiðið frá Íbúðalánasjóði og greiðslumat.

En eins og ég sagði, virðulegi forseti, vona ég að í framhaldi af þessari fyrirspurn komist hreyfing á þetta mál. Ég hef þegar óskað eftir því við viðskiptaráðherra að hann vinni áfram með þetta mál og vonandi sjáum við einhverja niðurstöðu í því sem fyrst.