137. löggjafarþing — 50. fundur,  12. ág. 2009.

vaxtarsamningar á landsbyggðinni.

143. mál
[18:12]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Þann 3. maí 2002 samþykkti Alþingi tillögu til þingsályktunar um stefnumótun í byggðamálum fyrir árin 2002–2005. Margvíslegt starf hefur verið unnið á grunni þessarar stefnumörkunar m.a. er varðar byggðarkjarna og vaxtarsamninga t.d. Eyjafjarðarsvæðisins, sem kom til framkvæmda í júlí 2004.

Á grunni þessarar stefnumótunar hefur verið samið um vaxtarsamninga víða um land sem síðan hafa tekið gildi hver á fætur öðrum. Maður getur spurt sig: Hvað er vaxtarsamningur? Einkenni slíks samnings er sameiginleg stefnumörkun samstarfsaðila fyrir vaxtargreinar á einu svæði. Vaxtarsamningur skal tengja saman atvinnuleyfi, rannsóknastofnanir, háskóla, menntun og fleira í skipulegu samstarfsneti og hann samanstendur af vaxtarklösum sem og stuðningsverkefnum.

Sú þróun í samningunum hefur verið mikilvæg að þeir hafa tekið gildi hver á fætur öðrum og fjármunirnir hafa nýst beint í verkefnin. Þar er lykilatriði að heimaaðilar stýra og möndla með alla þætti málsins á hverju svæði, enda er þar mesta þekkingu að hafa á svæðinu sjálfu og vaxtarmöguleikum þess. Sem dæmi má nefna vaxtarsamning Suðurlands og Vestmannaeyja sem gildir fyrir 2006–2009 en af 117 millj. sem liggja fyrir í þeim samningi hafa 75 millj. farið beint til hátt á fjórða tug verkefna, 15 millj. hafa farið í sérverkefni sem m.a. iðnaðarráðuneytið hefur áhrif á og enn eru nokkrar milljónir útistandandi. Þessir vaxtarsamningar hafa haft þann mjög svo jákvæða eiginleika að þeir eru eins og snjóbolti, fara kannski aðeins hægt af stað, sérstaklega í byrjun, en þeir hafa síðan hlaðið utan á sig, tekið inn sífellt áhugaverðari verkefni sem skipta meira og meira máli. Um þau er mikil ánægja og er vaxandi eftirspurn eftir því að komast í slík verkefni. Því langar mig að beina fyrirspurnum til hæstv. iðnaðarráðherra um það hver reynslan sé af samningunum um land allt og einnig hvort ráðherra hyggist framlengja slíka samninga. Sá samningur sem hún nefndi um Suðurland og Vestmannaeyjar rennur út í árslok en nokkrir samningar, þeir fyrstu, hafa nú þegar verið framlengdir eftir því sem ég best veit.