137. löggjafarþing — 50. fundur,  12. ág. 2009.

umhverfisgjöld tengd ferðaþjónustu.

153. mál
[18:28]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að spyrja hæstv. iðnaðarráðherra út í það sem snýr að hennar málaflokki, ferðamálunum, og það sem er sagt frá í stjórnarsáttmálanum. Verið er að velta upp ýmsu í þessum langa samningi sem ekki hefur vakið mikla athygli en er nú alveg þess virði að ræða og er afskaplega mikilvægt að við gerum það á þinginu. Á bls. 12 er málsgrein sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Kannaður verði grundvöllur þess að leggja á umhverfisgjöld tengd ferðaþjónustu sem renni til uppbyggingar þjóðgarða og annarra fjölsóttra og friðlýstra áningarstaða ferðamanna og til eflingar ferðaþjónustu.“

Það er ekki annað að skilja á þessum texta en að hér sé verið að hreyfa við hugmynd sem oft hefur verið rædd sem menn hafa ekki sett áður, eftir því sem ég best veit, í stjórnarsáttmála og ekki framkvæmt áður á landinu, nema á einum stað á Suðurlandi. Það olli miklum deilum en þá var tekið gjald af rútum sem komu með ferðamenn. Ég held að menn hafi hætt við það. Rök þeirra sem áttu það svæði voru þau að það væri mikill ágangur á svæðinu og það kostaði mikið að sjá um það. Þess vegna voru þessi gjöld sett á. En forsvarsmenn ferðaþjónustunnar brugðust mjög hart við og varð af þessu talsverð fjölmiðlaumfjöllun. Hér er þetta inni í stjórnarsáttmála og það hefur vakið athygli mína hvað lítið hefur farið fyrir umræðu um þetta. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. iðnaðarráðherra hvað menn eru að hugsa varðandi þetta, um hvers konar aðgangseyri er hér um að ræða? Þá er ég að vísa til hvort menn séu búnir að gera sér grein fyrir upphæðum og sömuleiðis um hvaða staði er að ræða. Það eru auðvitað margir staðir á Íslandi mjög fjölsóttir af ferðamönnum, og síðan hvenær þessi gjaldtaka kemur til framkvæmda. Er þetta eitthvað sem við eigum t.d. von á í tengslum við fjárlögin í haust?