137. löggjafarþing — 50. fundur,  12. ág. 2009.

umhverfisgjöld tengd ferðaþjónustu.

153. mál
[18:38]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Frú forseti. Ég er sérstaklega ánægður með þetta orðalag í stjórnarsáttmálanum og tel mikilvægt að þetta mál komi til lausnar á vettvangi ráðuneytanna í haust. Ég hef áður komið fram með þá tillögu að lífeyrissjóðirnir geti komið að þessu verkefni, þ.e. fjármagnað uppbygginguna strax, en gjaldið, með hvaða formi sem það verður innheimt, komi svo til greiðslu til lífeyrissjóðanna yfir lengri tíma.

Ég vil um leið nýta þetta tækifæri sem ég hef til að hvetja ráðherra til dáða á sviði ferðamála og með tvennum hætti þá helst, að stofnun Íslandsstofu komi sem allra fyrst til framkvæmda og að hún tryggi fjármagn til markaðssetningar á íslenskri ferðaþjónustu vegna þess að við eigum mikið undir því að þessi atvinnugrein skili tekjum inn í þjóðarbúið áfram eins og hún hefur gert hingað til.