137. löggjafarþing — 50. fundur,  12. ág. 2009.

umhverfisgjöld tengd ferðaþjónustu.

153. mál
[18:39]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherra fyrir skýr svör. Þau eru mjög athyglisverð og nokkuð nákvæm. Ég held að það sé ekki hægt að kvarta undan neinu þegar við erum komin með tölurnar 333 kr. fyrir aðgang í Gullfoss og 508 kr. fyrir aðgang fyrir Skaftafell, þá getur maður ekki kvartað undan því að hæstv. ráðherra sinni ekki upplýsingaskyldu sinni.

Þetta er mál sem er afskaplega mikilvægt að fara vel yfir. Það er rétt, eins og komið hefur fram í umræðunni, afskaplega mikilvæg atvinnugrein. Það liggur alveg fyrir að ef okkur tekst það sem við viljum, að fá hingað fleiri ferðamenn, og vonandi dreifast þeir meira yfir árið, þýðir það líka að við þurfum að fjárfesta í ýmsum þáttum til að sjá til þess að við skemmum ekki landið okkar. Það er eitthvað sem við verðum að horfast í augu við. Ég fagna því að menn skoði þetta ábyrgt og fari vel yfir það.

Það hefði verið gaman að átta sig á því um hvaða upphæð menn eru að ræða. Það er augljóst að menn eru farnir að hugsa nokkuð um þessi umhverfisgjöld. Það kom fram hjá hæstv. ráðherra að menn voru að hugsa um ferðamannagjald ofan á tryggingagjald sem væri 0,05% sem er þó nokkur upphæð. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki tækifæri til að reikna það hér en það verður að segjast eins og er að það er ansi mikið búið að leggja á þetta tryggingagjald og við skulum ekki gleyma því að það er launaskattur. Það þýðir að hver starfsmaður verður dýrari og ef við leggjum meira á þetta gjald erum við að ýta undir atvinnuleysi sem við viljum ekki gera.

En ég þakka fyrir skýr svör og ef hæstv. ráðherra er með það á hraðbergi hvaða tölur menn eru að hugsa um væri ágætt að fá þær fram.