137. löggjafarþing — 50. fundur,  12. ág. 2009.

umhverfisgjöld tengd ferðaþjónustu.

153. mál
[18:41]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Það er augljóst að hér ríkir nokkur sátt um að feta þessa braut, a.m.k. að fara vel yfir það í samráði við ferðaþjónustuna sjálfa með hvaða hætti þessu verði komið á og hvort það verður gert yfir höfuð.

Virðulegi forseti. Því miður er ég ekki með þær tölur sem hv. fyrirspyrjandi var að biðja mig um og ég er ekki til í að slumpa á upphæðina hér og nú, mér þætti það heldur óábyrgt. En ég skal reyna að fá þennan útreikning og koma honum til hv. þingmanns.

Ég er sammála því sem hér hefur verið sagt að ferðaþjónustan er okkur gríðarlega mikilvæg og þetta er mjög mikilvæg atvinnugrein. Hún er að verða ein af sterku, einstöku stoðunum undir efnahagslífi okkar og því skiptir máli að gera vel við hana. Ég hef áður sagt, af því að hv. þm. Magnús Orri Schram ræddi um markaðsátak og Íslandsstofu, að það eru svo sem engin geimvísindi að til þess að fá fleiri ferðamenn til landsins þurfum við að auglýsa erlendis. Þess vegna erum við að vinna í því núna á vettvangi ríkisstjórnarinnar að fara ofan í matarholur og reyna að finna fé til að ráðast í markaðsátak með haustinu. Það þurfum við að gera vegna þess að þó að bókanir séu góðar í sumar, eins og ég kom inn á áðan, og nái að haldast í horfinu er óvissa um hvað gerist að september liðnum og þá skiptir máli að við ráðumst í þetta átak.

Varðandi Íslandsstofu vonast ég til þess að það mál komi í þingið og ég geri ráð fyrir því að það komi í þingið von bráðar. Ég vona að hún eigi eftir að fá skjóta afgreiðslu innan húss enda málið orðið vel þroskað. Fram að þessu erum við búin að leggja drög að því að þeir aðilar sem að henni munu standa hefji nú þegar nánara samstarf vegna þess að það skiptir máli bæði fyrir ímynd landsins og það sem fram undan er, (Forseti hringir.) ásamt því að vera kynningarmál fyrir ferðaþjónustuna.