137. löggjafarþing — 50. fundur,  12. ág. 2009.

ívilnanir og hagstætt orkuverð.

154. mál
[18:46]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Enn þakka ég fyrir þessar fínu fyrirspurnir sem ég fæ hér í dag. Þessi er sérlega áhugaverð fyrir mig að koma inn á vegna þess að eins og réttilega kom fram birtist sú skýra stefna ríkisstjórnarinnar í stjórnarsáttmálanum að nýta skuli hreina og endurnýjanlega orku á sjálfbæran hátt til verðmæta- og atvinnusköpunar. Hugmyndin er ekki síst sú að ýta undir fjölbreyttari nýtingu orkunnar þannig að við dreifum áhættunni af orkufjárfestingunni og eflum umhverfisvæna atvinnuuppbyggingu.

Tilteknar eru tvær meginaðgerðir, annars vegar kortlagning á sóknarfærum Íslands í umhverfisvænum iðnaði og hins vegar að ýta þurfi undir fjárfestingar með tímabundnum ívilnunum og hagstæðu orkuverði eins og fyrirspyrjandi kom réttilega inn á. Nú er unnið að kortlagningunni í undirbúningi sóknaráætlunar sem þegar er hafinn og ég kom inn á í svari mínu áðan. Varðandi fjárfestingar er ánægjulegt að geta sagt frá því að þrátt fyrir efnahagssamdráttinn er enn mikill áhugi á verkefnum sem nýta íslenska endurnýjanlega orku og menntað vinnuafl. Í mínum huga er mikilvægt fyrir endurreisn efnahagslífsins að við fáum hingað erlenda fjárfestingu í arðbærum fyrirtækjum. Til þess þurfum við virkar aðgerðir. Samkeppnislönd okkar um slíkar fjárfestingar hafa boðið upp á ívilnanir þegar best áraði í efnahagslífi heimsins. Við höfum hins vegar hingað til farið þá leið að gera einstaka fjárfestingarsamninga þar sem við bjóðum m.a. ákveðna festu og stöðugleika í rekstrar- og skattumhverfi en slíka samninga gerum við enn, m.a. til að tryggja erlenda fjárfestingu þrátt fyrir gjaldeyrishöftin.

Nú síðast var undirritaður fjárfestingarsamningur vegna uppbyggingar aflþynnuverksmiðju Becromal og Strokks ehf. við Eyjafjörð og ESA hefur nýlega samþykkt fjárfestingarsamning vegna álvers í Helguvík sem undirritaður var sl. föstudag. Þá er líka unnið að fjárfestingarsamningi við Verne Holdings.

Virðulegi forseti. Við höfum viljað ganga lengra og því hefur verið skipaður starfshópur sem mun skila drögum að rammalöggjöf fyrir ívilnanir fyrir árslok. Þar með yrði til rammi utan um þær ívilnanir sem heimilt er að bjóða hér á landi og fyrir lægi að þær væru viðurkenndar af ESA. Slík rammalöggjöf auðveldar ekki aðeins kynningu á Íslandi sem fjárfestingarkosti heldur auðveldar hún einnig alla vinnu aðila við undirbúning verkefna og mat á þeim tækifærum sem hér bjóðast. Með þessu móti getum við líka unnið markvissar eftir markaðri atvinnustefnu, þ.e. hverjar áherslur okkar eru í uppbyggingunni. Með þessu erum við líka að tryggja gagnsæi í því sem við höfum upp á að bjóða og sömuleiðis stoppum við það þunga ferli sem þessi mál hafa hingað til verið í. Það er langt samningaferli í framhaldi af því þegar málið er komið fyrir Alþingi og eftir það þarf málið að fara til ESA.

Af því að hér var líka spurt um orkuverð þá er það svo að á Íslandi er orkuverð hagstætt og það byggir m.a. á hagkvæmni þess að nýta endurnýjanlegar náttúruauðlindir. Við þurfum þó að skoða gjaldskrár fyrir flutning raforku og hvernig við getum mætt þörfum þeirra stórnotenda sem nú eru skilgreindir fyrir neðan hin svokölluðu stóriðjumörk, þ.e. fyrir neðan 14 megavött og nýtingartíma 8000 stundir. Sérstök skoðun á því hvernig við getum nýtt orkukostinn til atvinnuuppbyggingar til skemmri tíma er nú í gangi af hálfu iðnaðarráðuneytis í samráði við orkufyrirtækin og ráðuneyti umhverfis- og fjármála auk þess sem senn tekur til starfa stýrihópur um mótun heildstæðrar orkustefnu. Vinna þess hóps mun nýtast í áðurnefndri sóknaráætlun fyrir Ísland, atvinnustefna og orkustefna þurfa að vinna saman.

Eitt af því sem við verðum þó að líta til er fjármögnun verkefna. Að mínu mati er fjármögnun, hvort sem er til orkuöflunar eða uppbyggingar iðnaðar, helsti þröskuldurinn sem nú þarf að yfirstíga. Þar verðum við að huga að nýjum leiðum á borð við verkefnafjármögnun en miðað við ástand og horfur á fjármálamörkuðum er ólíklegt að á næstu árum verði nýframkvæmdir fjármagnaðar með stórum hagstæðum lánum á bókum orkufyrirtækjanna eins og tíðkast hefur. Þá skiptir verulegu máli að með lögum nr. 58/2008 var eignarhald orkuauðlinda í opinberri eigu tryggt til frambúðar og aðskilið frá eignarhaldi þeirra fyrirtækja sem sinna áhættufjárfestingum og samkeppnisrekstri við orkuframleiðslu. Þar með er sá möguleiki opinn að við getum boðið fagfjárfesta á borð við lífeyrissjóði eða innlenda og erlenda fjárfesta velkomna í það verkefni að efla orkufyrirtækin eða fjármagna einstök verkefni á sviði orkuöflunar án þess að yfirráð sjálfra auðlindanna eða ábyrg nýting þeirra sé í hættu.

Virðulegi forseti. Ég mundi vilja nefna margt til viðbótar en ég tel að það skipti máli núna því að við erum með þrjár sterkar stoðir undir íslensku efnahagslífi — nú þurfum við að bæta þeirri fjórðu við sem er grænn iðnaður. Það er sú vinna sem felst í þessari sóknaráætlun og (Forseti hringir.) atvinnustefnumörkun.