137. löggjafarþing — 50. fundur,  12. ág. 2009.

stuðningur vegna fráveituframkvæmda.

144. mál
[19:07]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrirspyrjanda og hæstv. ráðherra fyrir fyrirspurnina og svörin. Hér er um gríðarlega stórt mál að ræða, mikið hagsmunamál fyrir alla sem að því koma, ríkisvaldið, íbúana og sveitarfélögin. Það er mjög mikilvægt að sveitarfélögin og ríkisvaldið eigi góðar samræður um hvernig eigi að leysa þetta mál því að ég hef kynnst því að mörg sveitarfélög geta hreinlega ekki farið í úrbætur sem nauðsynlegar eru samkvæmt þeim kröfum og reglugerðum sem samþykktar hafa verið hér á landi vegna fjárhagsstöðu sinnar, hreinlega vegna þess að það er þeim ofviða. Við höfum tekið upp viðmið og reglur Evrópusambandsins sem taka á engan hátt tillit til aðstæðna hér, t.d. til þeirrar staðreyndar að við erum eyja langt úti í ballarhafi þar sem í rauninni má fullyrða að lengi tekur sjórinn við og allt slíkt. Við eigum samt ekki að gerast neinir sóðar, ég er ekki að mæla fyrir því.

Ég vil gjarnan beina því til ráðherra, (Forseti hringir.) af því að hún þekkir vel til sveitarstjórnarmála, að hún beiti sér fyrir því að ekki verði hart gengið að sveitarfélögunum, síst á þeim tímum sem nú eru, en þeim gefið svigrúm.