137. löggjafarþing — 50. fundur,  12. ág. 2009.

áætlaður kostnaður við ýmis verkefni.

151. mál
[19:16]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Hv. þingmaður er áhugasamur um stjórnarsáttmálann, samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, það er vel og ánægjuefni að svara fyrir ýmsa liði þar. Hv. þingmaður spyr um kostnað við verkefni, í fyrsta lagi stjórnlagaþing. Þar er því til að svara að samkvæmt umsögn frá fjárlagaskrifstofu um frumvarp sem hér liggur fyrir er gert ráð fyrir að kostnaður við það geti orðið allt að 40 millj. kr. á mánuði. Þannig má áætla að miðað við átta mánaða þing yrði kostnaður um 312 millj. en 392 millj. miðað við 11 mánaða þing. Málið liggur fyrir á þingi til umfjöllunar, er ekki endanlega útfært og þaðan af síður afgreitt þannig að meira er að sjálfsögðu ekki hægt að segja á þessu stigi máls.

Í öðru lagi er spurt um viðbætur við velferðarkerfið samkvæmt stjórnarsáttmálanum og hverjar þær séu. Því er einfalt að svara að við núverandi aðstæður í ríkisfjármálum er ekki staða til að auka útgjöld til velferðarmála en eftir fremsta megni verður reynt að standa vörð um velferðarkerfið og nýta fjármuni sem þar er ráðstafað sem allra best, t.d. með samþættingu stofnana. Unnið er að endurskoðun á ýmsum þáttum innan velferðarkerfisins, t.d. verkaskiptum ríkis og sveitarfélaga. Megi það verða til hagræðingar og til að standa vörð um þjónustuna að færa verkefni, eins og umönnun á sviði málefna barna, fatlaðra, aldraðra og fjölskyldna, til sveitarfélaga frá ríki og samþætta þannig þjónustuna þá er það í skoðun og reyndar í ákveðnum tilvikum í undirbúningi samkvæmt samningi. Einnig er verið að endurskoða almannatryggingakerfið og auknum útgjöldum á sviði velferðarmála er mætt í allmörgum tilvikum þrátt fyrir erfiðar aðstæður. Þar ber fyrst að nefna að eindreginn ásetningur stjórnvalda er að standa vörð um atvinnuleysistryggingakerfið þó að það muni kosta gríðarlega aukna fjármuni, sennilega um 22 milljarða kr. á þessu ári í viðbót við það sem var á fyrra ári. Þeirri útgjaldaaukningu er mætt eftir því sem það dugar með hækkun á tryggingagjaldi.

Ákveðið hefur verið að auka verulega greiðslur vaxtabóta á þessu ári, væntanlega sem nemur um 2.330 millj. kr. umfram það sem hafði verið ákveðið í fjárlagafrumvarpi fyrir árið, og til þess verður ráðstafað drýgstum hluta tekjuauka ríkissjóðs vegna útgreiðslu séreignasparnaðar. Enn fremur hefur verið ákveðið að auka greiðslur húsaleigubóta, eða standa að fullu við þær hækkuðu húsaleigubætur sem höfðu verið ákveðnar, og það mun kosta allt að 1.000 millj. kr. á þessu ári. Auk þessa hefur ríkið í tengslum við stöðugleikasáttmálann gert viðbótarsamkomulag við sveitarfélögin um að gera upp skuldahala frá fyrra ári og þessu, vegna þess hluta húsaleigubóta sem til ríkisins heyrir. Ekki hafði verið ætlað fyrir því í fjárlagafrumvörpum þannig að þar er um umtalsverðar fjárhæðir að ræða sem ríkið leggur í púkkið. Ákveðið hefur verið að setja frítekjumark á lífeyrissjóðstekjur ellilífeyrisþega upp á 10 þús. kr. á mánuði, með kostnað upp á um 700 millj. kr. Ráðgjafarstofa heimilanna verður efld og til þess eru ætlaðar um 40. millj. kr. Síðan er áformað að auka á næsta ári framlög til símenntunar og fullorðinsfræðslu, sem er hluti af samkomulagi stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins, um allt að 100 millj. kr.

Varðandi framfærslugrunn Lánasjóðs íslenskra námsmanna er í skoðun hjá menntamálaráðuneytinu hvernig með það mál verði farið. Þar er ætlunin m.a. að reyna, eftir því sem viðráðanlegt er, að draga úr þeim mun sem er á milli annars vegar atvinnuleysisbóta og hins vegar námslána. Grunnatvinnuleysisbætur eftir skatta eru um 132 þús. kr. á mánuði en framfærslugrunnur lánasjóðsins 100.600 kr. á mánuði.

Varðandi aðlögunarstuðning við bændur sem hafa skipt úr hefðbundinni ræktun í lífræna og endurskoðun landbúnaðarstefnunnar þá er hafin vinna við að endurskoða landbúnaðarstefnuna í heild og þessi áform munu ganga inn í það endurskoðunarstarf. Þetta var ákveðið í samningum stjórnvalda og Bændasamtakanna nú í vetur þegar framlengdir voru samningar við hefðbundnu búgreinarnar, sauðfjárrækt og mjólkurframleiðslu, sem og við garðyrkjubændur á dögunum.

Varðandi Jafnréttisstofu er ekki gert ráð fyrir því að það kalli á aukinn útgjöld þó að staða hennar verði styrkt innan stjórnkerfisins. Þessum auknu útgjöldum verður augljóslega að mæta með hagræðingu og sparnaði á öðrum útgjaldaliðum og/eða auknum tekjum ríkissjóðs, eins og ég hef þegar gert að nokkru leyti grein fyrir.

Varðandi sérfræðiþjónustuna hef ég ekki í höndunum sundurliðaða áætlun um hana en minni kostnaður í þeim efnum kemur fram í sparnaðarramma ráðuneyta og stofnana.