137. löggjafarþing — 51. fundur,  13. ág. 2009.

vaxtamál.

[10:36]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það sem er áhugavert og athyglisvert í viðbrögðum hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra er það að hann virðist algerlega áhyggjulaus um samtímann. Hann hefur hins vegar mikinn áhuga á því að ræða þetta mál, líta í baksýnisspegilinn og reyna að skoða málið út frá fortíðinni. Menn eiga að hafa áhyggjur af þessari þróun, að raunvirði íbúðarverðs hefur lækkað um þriðjung frá því að það var hæst. Það má vel taka undir að það hafi verið orðið óeðlilega hátt en það breytir ekki því að enginn veit í rauninni hversu mikið íbúðaverðið mun lækka og ef ekki væri lækkun á íbúðaverði væri verðbólgan enn þá meiri en hún er þrátt fyrir allt í dag. Það eru með öðrum orðum íbúðareigendur, húsnæðiseigendur, almenningur í landinu sem ber byrðarnar af því að ríkisstjórnin er algerlega ráðalaus. Eins og hæstv. ráðherra sagði sjálfur, sem er mjög merkileg yfirlýsing af hans hálfu: Það er óvissa um alla grundvallarþætti í efnahagslífinu. Er hægt að lýsa efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar betur en þetta? Ég treysti mér ekki til þess og ég tek undir það með hæstv. félagsmálaráðherra (Forseti hringir.) að það ríkir óvissa um alla grundvallarþætti efnahagslífsins í landinu. Þetta er harður áfellisdómur frá ríkisstjórn frá hæstv. ráðherra. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)