137. löggjafarþing — 51. fundur,  13. ág. 2009.

staða heimila og fyrirtækja.

[10:48]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég er einlæglega sammála hv. þingmanni um að það er mjög mikilvægt að við eigum hér málefnalegar og uppbyggilegar umræður um það hvernig við mætum erfiðleikum heimila og fyrirtækja við þessar erfiðu aðstæður. Af hálfu ríkisstjórnarinnar hefur margt verið gert hvað varðar heimilin. Einkanlega var gengið frá lögum rétt fyrir kosningar um greiðsluaðlögun og tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðlána og lagaheimildum til þess að hægt sé að gefa eftir skuldir innan bankanna án þess að slík eftirgjöf sé skattskyld. Með því var greitt fyrir úrlausn erfiðra skuldamála heimila. Við erum með nefnd sem vinnur að því að kanna frekar hvað þarf að gera, hvað er mögulegt að gera og hvað er æskilegt að gera. Hún mun skila tillögum fyrir haustþing.

Ég kannast ekki við að af hálfu ríkisstjórnarinnar hafi verið hafnað tillögum stjórnarandstöðunnar til að ræða á málefnalegan hátt leiðir til úrlausnar vanda heimila og fyrirtækja. (Gripið fram í.) Hitt er annað mál að af hálfu sumra í stjórnarandstöðunni hafa verið lagðar fram tillögur um flata niðurfellingu skulda sem ekki er nein samstaða um. Ég vil benda á að hv. þingmaður og efnahagsgúrú Sjálfstæðisflokksins, Tryggvi Þór Herbertsson, lagði fram tillögur um það innan Sjálfstæðisflokksins og hann kom þeim ekki einu sinni í gegnum sinn eigin flokk. Það er því ekki þannig að það sé einhver einróma samstaða um það hvernig taka eigi á þeim vanda (Gripið fram í.) sem við erum að fást við að þessu leyti.

Af hálfu ríkisstjórnarflokkanna er sú afstaða alveg skýr, við teljum ekki að flöt eftirgjöf skulda, hvort sem menn kalla hana leiðréttingu eða 20% niðurfellingu, sé hagkvæm eða skynsamleg eða árangursrík leið fyrir heimilin í landinu.