137. löggjafarþing — 51. fundur,  13. ág. 2009.

staða heimila og fyrirtækja.

[10:50]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Frú forseti. Ég verð að segja fyrir mína parta að hæstv. félagsmálaráðherra byrjaði vel en endaði illa í þessu svari sínu. Ég kallaði eftir því að við ættum hér vitrænar umræður um þær tillögur sem lagðar hafa verið fram. Hæstv. ráðherra þarf ekki að kynna fyrir mér efnahagstillögur Sjálfstæðisflokksins, mér er fullkunnugt um þær og þær fela það í sér að menn taki tillit til og leiðrétti skuldastöðu heimilanna. Ég kallaði eftir því hvort hann væri tilbúinn að ræða þær á málefnalegum grunni en ekki eins og hann endaði hér á, að slá það allt út af borðinu, vegna þess að með eignahruni heimilanna og fyrirtækjanna — sérstaklega heimilanna — stefnir fólk til glötunar. Við verðum að bregðast við strax.

Þess vegna velti ég því upp og langar að spyrja hæstv. ráðherra af því að tími minn rennur senn út: Finnst honum tíma sumarþingsins hafa verið varið nægjanlega vel til þess að fjalla um þessi mál á efnislegum grunni? (Forseti hringir.) Ég ítreka að ég er ekki að gera lítið úr því sem hefur verið gert en betur má ef duga skal.