137. löggjafarþing — 51. fundur,  13. ág. 2009.

barnaverndarmál.

[10:59]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Sú fyrirspurn sem ég beini til félags- og tryggingamálaráðherra varðar velferð barna og þá staðreynd sem fram hefur komið í fjölmiðlum að barnaverndarmálum hefur fjölgað mjög á þessu ári, þó mest í Reykjavík þar sem tilkynningum til Barnaverndarstofu Reykjavíkur fjölgaði um 40% á fyrstu mánuðum ársins.

Það er ástæða til að hafa áhyggjur af velferð barna við þær aðstæður sem nú ríkja í samfélaginu þar sem við vitum að hætta er á margvíslegum heimilisvanda á borð við þunglyndi, óreglu, ofbeldi og ósætti foreldra á krepputímum. Fram kemur á heimasíðu Barnaverndarstofu að flestar tilkynningar fyrstu fjóra mánuði ársins 2009 voru vegna áhættuhegðunar barna, þ.e. rétt um helmingur allra tilkynninga. Ríflega þriðjungur tilkynninga var vegna vanrækslu á börnum og um 20% vegna ofbeldis gegn börnum. Umboðsmaður barna hefur sagt að þessi tíðindi komi í raun ekki á óvart. Hún kveðst finna fyrir auknu áreiti, álagi og vanlíðan úti í samfélaginu, að kveikjuþráður fólks sé almennt styttri og það bitni ekki síst á börnum.

Í ljósi þessara upplýsinga beini ég þeirri fyrirspurn til hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra hvort og þá á hvern hátt ráðuneyti hans hafi brugðist við eða hyggist bregðast við þessum upplýsingum.