137. löggjafarþing — 51. fundur,  13. ág. 2009.

barnaverndarmál.

[11:01]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem hér kemur fram í fyrirspurn að tilkynningum til barnaverndaryfirvalda hefur fjölgað nokkuð það sem af er þessu ári miðað við sama tíma í fyrra. Af hálfu ráðuneytisins er þessi þróun litin mjög alvarlegum augum enda mikil hætta á því af reynslu nágrannaríkja okkar að dæma að erfiðleikar í efnahagslífi bitni fljótt á börnum og ungmennum. Það eru ekki bara ung börn heldur líka unglingar, sem eiga erfitt með að fóta sig á vinnumarkaði við þessar aðstæður, sem geta farið illa út úr kreppu.

Af hálfu ráðuneytisins var í vetur sett á fót svonefnd velferðarvakt, sem er mjög merkilegt fyrirbæri, þar sem saman koma fulltrúar ráðuneyta, sveitarfélaga, hagsmunasamtaka, líknarfélaga og allra þeirra sem að málum koma í reynd hvað varðar velferðarþjónustuna í víðum skilningi og bera saman bækur sínar. Við höfum lagt tiltekið fé til þessarar vaktar sem hún hefur til ráðstöfunar. Hún hefur ákveðið að leggja peninga í frekari rannsóknir á því hvað veldur þessum tilkynningum. Við sjáum sérstaklega að tilkynningum fjölgar vegna áhættuhegðunar og einnig að fleiri tilkynningar hafa borist úr skólum en áður. Það þarf ekki að vera vont að tilkynningum fjölgi. Það getur vel verið að það sé dæmi um að við gætum nú öll betur hvert að öðru og að við séum öll meira vakandi fyrir erfiðleikum sem upp koma. En það er mjög mikilvægt að fylgjast vel með og greina vel ástæðurnar og bregðast hratt við.