137. löggjafarþing — 51. fundur,  13. ág. 2009.

barnaverndarmál.

[11:03]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra þær upplýsingar sem fram koma í svari hans og vil láta þess getið að það er fagnaðarefni það frumkvæði sem tekið hefur verið í þessum efnum. Ég vil bara nota þetta tækifæri og hvetja ráðherrann enn frekar til dáða. Við vitum það af reynslu nágrannalanda okkar, t.d. frá Svíþjóð og Finnlandi þar sem hafa gengið í garð erfiðir tímar, að þar var sérstök ástæða til þess að hafa áhyggjur af velferð barna sem liðu mjög fyrir það ástand. Börn eru saklaus og þau eru varnarlaus en þau eru líka framtíð landsins og þess vegna ríður mjög á að tryggja velferð þeirra þegar harðnar á dalnum eins og gerst hefur í samfélagi okkar.