137. löggjafarþing — 51. fundur,  13. ág. 2009.

tekjuskattur.

166. mál
[11:17]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir síðustu orð hv. þingmanns. Ég held að það sé okkur bráðnauðsynlegt við þessar aðstæður að vinna með öðrum aðilum að því að rannsaka atburði og endurheimta eignir eftir því sem mögulegt er. Ýmislegt er í gangi í þeim efnum eins og menn hafa séð og heyrt af fréttum að undanförnu, bæði varðandi einstök lönd, alþjóðalögregluyfirvöld og fleiri slíka aðila. Það er t.d. alveg ljóst að aðgangur að upplýsingum í Lúxemborg getur skipt miklu máli, bæði fyrir rannsókn skattyfirvalda og þá sem rannsaka bankaatburðina.

Varðandi þau efnisatriði sem hv. þingmaður nefndi þá er hér um almenna heimild að ræða og ekkert sólarlagsákvæði er á gildistöku hennar enda tel ég þetta vera hið eðlilega fyrirkomulag. Ég tel að það sé algjörlega sjálfsagt mál að skattyfirvöld hafi þessar heimildir til að tryggja hagsmuni okkar þegar rannsóknir mála bjóða upp á það. Ég má ábyggilega upplýsa það hér að skattyfirvöld væru alveg til í að fá ríkari heimildir í sínar hendur. Þar hefur helst borið á góma hvort skattrannsóknarstjóri eigi að fá ákæruvald þannig að hann geti farið alla leið með málin. Einn galli á núverandi ástandi er sá að skatturinn rannsakar mál og ef þau gefa tilefni til meira en fjársekta eða lúkningar á þeim grunni ber skattinum að senda þau til lögreglu. Þar er mikið annríki eins og kunnugt er og þá vill það gerast að verulega dragist að slík mál komist áfram sína leið. Þetta kann að vera umdeilt atriði og í þessu tilviki er ekki gengið svo langt en það þýðir ekki að sá möguleiki að fara þessa leið hafi verið sleginn af.

Varðandi fyrirkomulag í öðrum löndum veit ég ekki hvernig það er í einstökum tilvikum á hinum Norðurlöndunum en ég leyfi mér að fullyrða að líklegt sé að bæði bresk og bandarísk skattyfirvöld hafi ríkari heimildir en þær sem hér hafa verið. Miðað við það sem ég þekki til þess hversu vasklega þar er iðulega gengið fram í þessum efnum þykist ég vita að svo sé. Ég held að reikna megi með að við förum hér ekki lengra en (Forseti hringir.) almennt er gert.