137. löggjafarþing — 51. fundur,  13. ág. 2009.

tekjuskattur.

166. mál
[11:20]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum mjög mikilsvert mál og mikilsvert frumvarp sem því miður hefur ekki verið lengi til skoðunar. Ég vona að það fái almennilega umræðu í nefndinni vegna þess að þetta skiptir verulegu máli. Við hrunið komu fram óskir um að rannsaka allt sem best og ég er mjög hlynntur því að rannsaka sem mest og best, fá upplýsingar um hvað gerðist raunverulega og njóta til þess aðstoðar sem flestra ríkja því að þetta eru alþjóðlegir fjármálastraumar.

Enn fremur er mjög mikilvægt, og ég hef margoft bent á það, að hafi einhver brotið lög þá sé honum refsað. Ekki vegna refsigleði heldur vegna þess að það er mjög mikilvægt að góðir siðir séu í atvinnulífinu og farið sé að lögum. Hins vegar verðum við að gæta okkar. Það hefur verið varað við því að réttarríkið kunni að vera í húfi að einhverju leyti og að menn fari offari í því að setja lög og reglur til að ná ákveðnum markmiðum. Hér í athugasemdum við frumvarpið kemur fram, með leyfi frú forseta:

„Þá hafa fregnir á undanförnum vikum og mánuðum af milljarða fjármagnsflutningum frá Íslandi inn á bankareikninga í þekktum skattaskjólum af hálfu forsvarsmanna fjármálafyrirtækja sem annarra vakið upp ótal spurningar um íslensk lög og rétt. Þær raddir verða því sífellt háværari sem segja að auka þurfi verulega við refsiheimildir stjórnvalda, m.a. til kyrrsetningar og/eða haldlagningar eigna þeirra aðila sem taldir eru bera ábyrgð á tjóninu og verða dæmdir sem slíkir.“

Í lögum eru heimildir til kyrrsetningar eigna þegar rökstuddur grunur liggur fyrir um að menn hafi framið afbrot. Mér sýnist að þessi setning sem ég las úr lagafrumvarpinu sé nákvæmlega ástæðan sem Bretarnir notuðu til þess að setja hryðjuverkalög á Landsbankann í London. Þeir beittu ýtrustu meðulum einmitt á grundvelli ákveðinna fregna og sögusagna. Þess vegna hef ég lagt svo mikla áherslu á að menn rannsaki raunverulega hvað gerðist, ekki einhverjar sögusagnir og fregnir. Það ætti að vera komin mynd á það. Við erum með sérstaka rannsóknarnefnd hérna á Íslandi sem hefur gífurlegar heimildir. Ég samþykkti þær heimildir þó að þær brytu á margan hátt eða væru á skjön við persónuverndarlög og ýmislegt annað, upplýsingalög og annað slíkt, vegna þess að ég tel svo mikilvægt að fá upplýsingar um hvað raunverulega gerðist, ekki sögusagnir.

Í þessu frumvarpi erum við að tala um mjög stórar upphæðir sem sumir eru taldir hafa misfarið með — og það getur vel verið að í ljós komi að það hafi verið saknæmt og því miður kemur eflaust eitthvað slíkt í ljós, ég veit það ekki. En við erum líka með stóran hóp Íslendinga, og ekki endilega sterkasta hópinn í landinu, sem kann ekki að telja fram. Hann kann bara ekki að telja fram og telur ekki fram dagsdaglega. Þetta er ótrúlega stór hópur, tugir þúsunda skattgreiðenda sem telja ekki fram og sæta áætlunum á hverju einasta ári. Ég er margbúinn að benda á að það er afskaplega ófélagslegt hvernig farið er að. Skattstjórar áætla á þetta fólk, sem oft er undir í þjóðfélaginu og kann jafnvel ekki að lesa — það er talið að 7% af þjóðinni kunni ekki að lesa. Einn skattstjórinn sagði við mig þegar ég var að reyna að verja einn af þessum skjólstæðingum: Ég gerði þetta til þess að hreyfa strákinn. Það sem strákurinn gerði var að hann lagðist bara undir sæng og varð enn þá þunglyndari. Það voru nú öll áhrifin. Á hann voru áætlaðar tvær, þrjár milljónir í sköttum sem er alveg út í hött miðað við þann litla atvinnurekstur sem hann var með.

Ég talaði við skattstjórann í Reykjavík og stakk upp á því að hann byði þessu fólki í kaffi og hjálpaði því við að telja fram. Í staðinn er áætlað á þetta fólk og síðan er því fylgt alveg á fullu. Það sem ég óttast er að þessum lögum verði beitt, að nú verði eignirnar bara kyrrsettar ef þær finnast einhvers staðar. Við skulum passa okkur á hvað við erum að gera og fara mjög varlega. Ég vil að hv. efnahags- og skattanefnd sem fær þetta mál væntanlega til meðhöndlunar gefi sér tíma, jafnvel þó að menn hafi ekki tíma núna. Hún verður að gefa sér tíma vegna þess að þetta er mjög sterkt vopn í hendi embættismanna til þess að ná í með réttu ef einhver skyldi hafa brotið lög og flutt milljarða og hundruð milljarða, einhverjar af þessum gífurlegu tölum sem við fáum fréttir og sögur af — það er eðlilegt ef lög hafa verið brotin. Ef lög hafa ekki verið brotin verðum við hins vegar að breyta lögunum og sætta okkur við að menn hafi gert eitthvað þar sem göt hafa verið í lögunum.

Lagasetningin er nefnilega ekki nógu góð. Ég minntist á það 30. október sl. að töluverð ábyrgð á þessu hruni væri hjá Alþingi og löggjafarsamkundunni vegna þess að lagasetningin sem við höfum yfirtekið frá Evrópusambandinu er götótt. Hún er stórlega götótt og það er að koma í ljós í Icesave-málinu. Ef lagasetningin var götótt og einhver hefur notað sér götin getum við ekki sakfellt það fólk, það braut ekki lög. Það nýtti sér göt í lögunum og við eigum að stoppa í þessi göt. Fyrst þurfum við þó að fá upplýsingar um hvað gerðist nákvæmlega.

Ég vil að hv. efnahags- og skattanefnd fari mjög varlega í þetta þannig að við gerum nú ekki það sama og Bretar, sem settu hryðjuverkalög á heila þjóð og beittu þeim til að kúga okkur til að samþykkja ýmislegt.

Eins og hæstv. ráðherra sagði áðan í andsvari vilja skattheimtumenn og framkvæmdamenn skattkerfisins gjarnan fá miklu sterkari heimildir og ganga vasklega fram, ég efa það ekki. Það þarf að passa að þeir gangi ekki vasklega fram gegn þeim hópi sem ég nefndi áðan og stendur félagslega mjög veikt. Við þurfum því að passa okkur á þeim heimildum sem við gefum þessu vasklega fólki, að það gangi ekki of hart gegn öðrum sem eru ekki eins sterkir.

Ég vil undirstrika að ég legg áherslu á að við finnum hvað fór úrskeiðis. Rannsóknarnefndin er að vinna að því og mun skila skýrslu í nóvember. Þá munum við, vonandi í samstarfi við aðrar þjóðir, vita hvað fór úrskeiðis. Þá skulum við laga lögin og reglurnar þannig að slíkt komi ekki fyrir aftur. Komist hún að einhverju um að menn hafi brotið lög ber henni að vísa því til sérstaks saksóknara sem Alþingi er líka búið að stofna. Ég vona að það sé orðin nægilega sterk stofnun til þess að ráða við og ákæra og rannsaka þá sem hafa brotið lög. Það er mjög mikilvægt, eins og ég gat um áðan, að gefa þau merki út í þjóðfélagið að í atvinnulífinu brjóti menn ekki lög. Við skulum samt passa okkur á því að veita ekki svo miklar heimildir að réttarríkið fari að rugga.