137. löggjafarþing — 51. fundur,  13. ág. 2009.

tekjuskattur.

166. mál
[11:32]
Horfa

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þekki hv. þingmann af því að vinna hratt og mikið og leggja vel á sig við vinnu á Alþingi. Það er alveg rétt að það þarf að kalla til aðila utan úr bæ til að veita umsögn um þetta. Það sem ég er einfaldlega að segja og kalla eftir hjá hv. þingmanni er hvort ég megi ekki túlka hinn jákvæða tón hans sem hér kom fram fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins þannig að við munum vinna þetta hratt, vegna þess að eins og hér er talað um eru möguleikar á að kyrrsetja eignir meðan rannsókn stendur yfir. Nú er þetta komið fram og ég tel ákaflega mikilvægt að Alþingi geti klárað þetta sem allra hraðast þegar búið er að sýna hver hugurinn er. Við eigum ekki að geyma það þannig að möguleiki geti skapast á að skjóta eignum undan vegna hugsanlegrar rannsóknar eða einhvers ástands. Við þurfum að ganga þessa göngu vegna þess að ástandið er svo sérstakt í þessu þjóðfélagi núna út af bankahruninu.

Vonandi er það svo, virðulegi forseti, að skattyfirvöld þurfi aldrei að nota þessar miklu heimildir sem við ætlum að setja inn. Ég treysti því þó og trúi að Sjálfstæðisflokkurinn muni leggja þessu lið núna á allra næstu dögum og reyna að vinna þetta það hratt að við getum jafnvel klárað þetta mál í næstu viku. Það er mjög mikilvægt að mínu mati.