137. löggjafarþing — 51. fundur,  13. ág. 2009.

tekjuskattur.

166. mál
[11:35]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel ástæðu til að koma upp og reyna að skilja betur hv. þm. Pétur Blöndal og hans ræðu. Hv. þingmaður sagði eitthvað á þá leið að hann teldi talsverða hættu á misnotkun þessa ákvæðis. Hann varaði við misnotkun og bætti um betur í andsvari og sagði að það þyrfti að vinna þetta mál í a.m.k. tvær vikur af því að það væri mikilvægt að félagslega veikir hópar á Íslandi yrðu ekki fyrir barðinu á þessu úrræði. Ég held að það sé alger útópía að halda að félagslega veikir hópar verði fyrir barðinu á þessu úrræði þegar um er að ræða heimild fyrir skattyfirvöld til að kyrrsetja eignir í þessu ástandi sem nú ríkir. Ekki sé ég það fyrir mér, virðulegi forseti.

Ég tel einmitt að þetta frumvarp komi fram allt of seint, það hefði átt að vera búið að afgreiða þetta strax eftir bankahrunið. Í frumvarpinu stendur á bls. 3, með leyfi forseta:

„Með löngum rannsóknartíma er hætt við að eignum sé komið undan“.

Auðvitað er það þannig. Það er ekki eins og hv. þm. Pétur Blöndal segir að til staðar þurfi að vera vissa fyrir broti til að menn geti gripið til þessara úrræða. Samkvæmt frumvarpinu er nóg að það sé grunur, þá er hægt að grípa til úrræðanna. Mér finnst afar ólíklegt að þessi ákvæði verði misnotuð. Ég held einmitt að það þurfi að fara hratt í gegnum þetta mál á þinginu og sú er hér stendur hefði helst viljað að það færi í gegn áður en við tökum sumarleyfi, hvenær sem kemur nú að því. Ég tel að það þurfi ekki að bíða í margar vikur með þetta mál. Allur frestur er til skaða og við hefðum átt að vera búin að vera að klára þetta fyrir löngu (Forseti hringir.) síðan.