137. löggjafarþing — 51. fundur,  13. ág. 2009.

tekjuskattur.

166. mál
[11:42]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Sérfræðingar í bankahrunum og hruni efnahagskerfa hafa varað við því aftur og aftur að menn láti réttarríkið fyrir róða. Menn eiga að standa vörð um réttarríkið einmitt í svona stöðu. Þó að fólkið vilji þetta og hitt í reiði sinni megum við ekki láta það hugsanlega bitna á einstaklingum. Þess vegna krefst ég þess, frú forseti, að málið sé unnið almennilega. Að við gerum ekki einhverjar lagasetningartilraunir og stöndum svo uppi eftir á með að það lendi á allt öðru fólki. Ég vil vera viss um það. Ég er ekki á móti því að þetta sé gert. Ég er á móti því að það geti lent á röngum aðilum.

Ég hef því miður fengið fréttir af því og talað við manneskju sem lenti í fangelsi en átti ekki að gera það samkvæmt 109. gr. skattalaganna. Það er þannig. Kona lenti í fangelsi af því að endurskoðandi hennar neitaði að afhenda reikningana af því að hún gat ekki borgað þá, hún gat ekki talið fram. Ég er með nokkur svona dæmi. (Gripið fram í: Þetta tekur ekki til þess.) Þetta tekur einmitt til þess. Ef grunur leikur á um eitthvað slíkt getur yfirvaldið kyrrsett eignir. Við erum þannig að víkka út heimildina til ná því fram sem ætlað er í frumvarpinu. Ég er í sjálfu sér ekki á móti því. Ég hef ekki á móti því að ná til milljarðafærslna en við þurfum að gæta okkar á því að þetta lendi ekki einhvers staðar annars staðar. Ég vil vera viss um það, frú forseti. Ég vil fá tíma til að ræða við gesti og fá umsagnir frá þeim sem þekkja málið, frá endurskoðendum sem hafa talið fram fyrir fólk og jafnvel reynt að bjarga einhverjum sem hafa lent í áætlunum. Frá skattstjóra, hann hefur líka sínar skoðanir og sína sögu að segja. Ég vil fá að vinna að því í friði og almennilega þó að við höfum lent í hruni. Við þurfum nefnilega að gæta að réttarríkinu.